Anna Henriksdóttir

Anna Henriksdóttir

Myndlistarkennari/listamaður

Anna Henriksdóttir sér um listkennslu og skapandi iðju hjá Hlutverkasetri — svo sem listasmiðju, leirmótun og teikninámskeið.

Anna kenndi fimleika í 20 ár og starfaði sem tækniteiknari hjá arkitektastofum í áratug. Hún missti vinnuna í efnahagshruninu og uppgötvaði Hlutverkasetur í gegnum sitt stéttarfélag; VR, árið 2009. Hún byrjaði sem sjálfboðaliði hjá Hlutverkasetri en var innan tíðar komin þar í fullt starf. Anna aflaði sér frekari menntunar og lauk meistaranámi í kennslufræðum M.Art.Ed hjá Listaháskóla Íslands árið 2011.

Hún er alltaf liðtæk í alls kyns uppákomur og tekur gjarnan dansspor, fer í fjallgöngur, bakar smákökur og býr til sultur. Það er sama hvaða iðju hún tekur sér fyrir hendur, það leikur allt í höndunum á henni.

Anna er afar vinsæl á meðal þátttakenda, því hún nær einhvern veginn að laða það besta fram í öllum og ýta fram listamanninum í hverjum og einum. Hún er áhugasöm, hvetjandi og ekkert verk er henni óviðkomandi. Í frítíma sínum stundar hún listsköpun.