NsN – Notandi spyr Notanda

  Meginmarkmið verkefnisins er að kanna stöðu, ímynd, upplifun og reynslu einstaklinga með geðraskanir. Fá sýn notenda á þjónustunni; hvað þeir kunna að meta, hvað þeim er mikilvægt og hvað þeim finnst vanta. Í NsN er það fyrst og fremst starfsfólk með notendareynslu sem aflar gagnanna, greinir gögnin og setur saman í skýrslu. Upplýsingarit um NsN verkefnið.

  Notandi spyr notanda (NsN) er rannsóknaraðferð sem hefur verið þróuð af einstaklingum með reynslu af geðheilbrigðiskerfinu. Að hafa reynslu af því að greinast með geðsjúkdóm og hafa verið í hlutverki sjúklings eða notanda geðheilbrigðis- eða velferðarkerfisins er reynsla sem fáir heilbrigðisstarfsmenn og rannsóknarfólk hafa.

  Frá 2006–2012 hafa NsN starfsmenn Hlutverkaseturs rætt við íbúa sem búið hafa í fjórtán ólíkum búsetuúrræðum. Átta á vegum Svæðisskrifstofu fatlaðra og sex á vegum Reykjavíkurborgar. Einnig hafa verið tekin viðtöl við um 55 einstaklinga sem nýtt hafa dagúrræði víða um land. Meginmarkmið verkefnisins er að kanna stöðu, ímynd, upplifun og reynslu einstaklinga með geðraskanir. Fá sýn notenda á þjónustuna; hvað þeir kunna að meta, hvað þeim er mikilvægt eða hvað þeim finnst mega betur fara. Í NsN er það fyrst og fremst starfsfólk með notendareynslu sem aflar gagnanna, greinir gögnin og setur saman í skýrslu.

  Verkefni NsN starfsmanna Hlutverkaseturs á árunum 2013- 2021.                                                                                                      2013 var NsN könnun á þörfum gesta Vinjar og 2013 – 2014 var könnun á Samfélagsgeðteymi Landspítalans. Alþjóða geðheilbrigðisdaginn 2013 „Geðheilsa á efri árum“ NsN fræðslur á 5 félagsmiðstöðvum fullorðina.2015 voru nokkrar NsN fræðslur. 2016 – 2017 var úttekt v/ margbreytileika starfsfólks á búsetukjörnum sem og viðtöl við starfsmenn v/Atvinnuþáttöku og notendasamráð. 2018 NsN könnun Geðhjálpar og Hlutverkaseturs. 2019 – 2021 NsN úttekt – Viðtöl við notendur og starfsmenn

  Verkefnið hefur m.a. skapað þekkingu sem hefur verið nýtt á starfs- og fræðsludögum á viðkomandi starfsstöðum og á málþingum um allt land. Að lokinni hverri úttekt voru gerðar skýrslur sem sendar voru ráðuneytinu, starfsstöðvum og Reykjavíkurborg. Þá voru haldnir starfsdagar í viðkomandi íbúðakjörnum þar sem niðurstöður skýrslnanna voru kynntar og starfsmenn Hlutverkaseturs deildu reynslu sinni af þátttökunni í verkefninu. Í framhaldi voru sett framtíðarmarkmið, meðal annars að virkja íbúa betur í nærumhverfinu s.s. við daglegar athafnir til að auka sjálfstæði og sjálfræði. Á sumum stöðum þurfti að draga úr stjórnsemi og forræðishyggju starfsfólks og sum búsetuúrræðin voru rekin meira eins og stofnanir frekar en heimili.

  Þeir íbúar sem nutu stuðnings frá sjálfboðaliðum Rauða krossins voru afar ánægðir með þá tengingu og óskuðu eftir framhaldi á því. Eins komu fram hugmyndir um að fá námskeið þar sem þátttaka væri á jafningjagrunni. Tillögur til nýsköpunar komu helst fram í því að ráða starfsfólk með notendareynslu til starfa í íbúðakjörnunum. Þannig starfsmenn gætu betur sett sig í spor íbúa, væru fyrirmyndir og myndu hvetja íbúa til að takast á við áskoranir sem tengdust aukinni samfélagsþátttöku.

  Fyrirmyndin að NsN-verkefninu er fengin frá Þrændalögum í Noregi, þar sem gæðaþróun var framkvæmd af notendum geðheilbrigðisþjónustunnar í fyrsta sinn árið 1998. Í Þrændalögum hefur verkefnið opnað augu manna fyrir mikilvægi notendaáhrifa innan geðheilbrigðisþjónustunnar. Auk þess sem sýnt hefur verið fram á að einstaklingar með geðraskanir geta unnið að og framkvæmt viðamiklar gæðakannanir og rannsóknir. NsN-aðferðin hefur náð aukinni útbreiðslu í Noregi.

  Undanfarin ár hafa orðið miklar framfarir á sviði gæðaþróunar í félags- og heilbrigðisþjónustu. Sú þróun byggist á viðleitni allra sem hlut eiga að máli til að bæta árangur, vinnubrögð og hagkvæmni til að koma til móts við óskir, þarfir og væntingar þeirra sem nota þjónustuna. Ýmsar leiðir eru notaðar til að meta faglegan árangur og mikilvægt er að þær séu fastur liður í rekstri þjónustunnar, því vaxandi kröfur eru gerðar um fjárhagslegan ávinning, jafnrétti og lífsgæði. NsN-aðferðin var fyrst framkvæmd á Íslandi árið 2004 á þremur geðdeildum Landspítala háskólasjúkrahúss. Verkefnið byrjaði sem samstarfsverkefni háskólasamfélags og Heilsugæslu Reykjavíkur og var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna með mótframlagi frá Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Iðjuþjálfanemar við Háskólann á Akureyri útfærðu verkefnið í samstarfi við notendur. Verkefnið, sem unnið var árið 2004, tókst vel og var tilnefnt sem eitt af fjórum verkefnum Nýsköpunarsjóðs til Forsetaverðlauna.

  Árið 2005 undirrituðu Evrópuþjóðir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) yfirlýsingu um geðheilbrigðismál, svo kölluð „Helsinki skjöl“. Þar sem fram kemur að móta verði, innleiða og meta stefnu og löggjöf sem leiði til aðgerða og feli í sér að auka velferð þjóða, draga úr geðrænum vandamálum og leggja áherslu á að fólk með geðraskanir séu virkir þátttakendur í samfélaginu.

  Með verkefninu gefst tækifæri til að móta þjónustuna út frá þörfum og vilja þeirra sem hana nýta og auka þannig gæði og skilvirkni. Sjónarmið notenda á gæðum þjónustunnar er hægt að nýta til að opna umræðuna enn meir um þjónustuform einstaklinga með geðraskanir og aðlaga hana að þeirra þörfum og vilja. Með því að skapa vel metin störf fyrir einstaklinga með geðraskanir, til að móta og hafa áhrif á félagsþjónustu, er verið að efla mann- og félagsauð. Mannauður byggir á menntun og þjálfun einstaklinga. Félagsauður eru þau verðmæti og áhrif sem skapast í tengslum á milli manna. Ávinningur verkefnisins er einnig fjárhagslegur fyrir samfélagið. Um 20 einstaklingar hafa fengið vinnu í NsN-verkefninu sem hefur leitt til frekara náms eða vinnu á almennum markaði. Starfsfólk NsN nefndi nokkra þætti sem höfðu haft jákvæð áhrif s.s. aukið sjálfstraust, úthald og vilja. Þátttaka í verkefninu gaf þeim von og tækifæri til að efla styrkleika sína og huga að frekari landvinningum á almennum vinnumarkaði.

  Til að hafa samband við starfsmenn NsN verkefnisins er best að senda vefpóst á hlutverkasetur@hlutverkasetur.is

  Hér er hægt að nálgast skýrslu NsN-hópsins: Samfélagsþegn eða aumingi. Upplifun og reynsla einstaklinga með geðraskanir af íslensku samfélagi og þjónustu við þá. Smelltu hér til að sjá skýrsluna

  Fræðslur, kynningar og spjall
  Hluti af samningi NsN við Velferðarsvið Reykjavíkurborgar er að koma á íbúafundi eða húsfundi búsetukjarna velferðarsviðs til að upplýsa íbúa um réttindi sín og skyldur í kerfinu og kynna hlutverk NsN. Hægt er að senda vefpóst á hlutverkasetur@hlutverkasetur til að panta heimsókn og hvetjum við íbúa búsetukjarna velferðarsviðs til að hafa samband sjálfir.
  En auðvitað er öllum velkomið að hringja, hvort það eru íbúar eða starfsfólk.

  Fótbolti

  Um FC Sækó

  Knattspyrnuverkefnið “Geðveikur fótbolti“ byrjaði í nóvember 2011 sem samstarfsverkefni Hlutverkaseturs, Velferðarsviðs Reykjavíkur og geðsviðs Landspítalans. FC Sækó knattspyrnufélag var stofnað árið 2014 og er það skipað notendum geð- og velferðarkerfisins, starfsmönnum þess og öðrum sem hafa áhuga á að styðja við verkefnið. Tilgangur þess er að efla og auka virkni notendahóp fólks með geðraskanir og gefa þeim tækifæri til að iðka knattspyrnu sem og að draga úr fordómum. Síðustu ár höfum við verið að taka þátt í Gulldeildinni í fótbolta og höfum spilað á knattspyrnumóti með knattspyrnufélaginu Ösp hjá Íþróttafélagi fatlaðra, Nes hjá íþróttafélagi fatlaðra á Reykjanesi og old boys liðum Breiðabliks og Þróttar Reykjavík og liði frá Sunderland í Englandi. Markmið FC Sækó er fyrst og fremst efla andlega og líkamlega heilsu fólks, vera sýnileg og hafa gaman. Á æfingum eða í leikjum eru allir jafnir og þannig styðjum við hvort annað og drögum við úr fordómum. Það eru allir velkomnir að æfa og/eða spila með okkur, konur og karlar, fólk sem tengist geð- eða velferðarsviði og/eða úrræðum því tengdu eða aðrir. Eitt af verkefnum FC Sækó er að fara erlendis annað hvert ár til að heimsækja sambærileg verkefni, spila við þá og efla tengslin því eitt af langtímamarkmiðum FC Sækó er að halda alþjóðlegt mót í geðveikum fótbolta á Íslandi. Svona ferðir eru líka liður í að efla heilsu þátttakenda því fyrir marga sem glíma við andleg veikindi þá er mjög erfitt að fara út fyrir “þægindaramman”. Þátttakendur taka sjálfir þátt í að greiða hluta ferðarinnar en annars sjá starfsmenn og nokkrir notendur félagsins um að afla þess fjárs sem á vantar hverju sinni. Eitt af því sem gert er til að safna fé er að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka en þess utan er hægt að leggja beint inn á styrktarreikning félagsins. Frekari upplýsingar um æfingatíma og fleira má nálgast hjá Bergþóri þjálfara FC Sækó í síma 8245315 eða á Facebook síðu fótboltahópsins: https://www.facebook.com/Fcsaeko

  Hér að neðan eru eldri verkefni

  Geðræktarnámskeið og fræðsla

  Hlutverkasetur býður upp á geðræktarnámskeið og fræðslu fyrir einstaklinga, stjórnendur, fyrirtæki, skóla og almenning. Fræðsla um geðrækt gefur almenningi verkfæri í hendur til að efla bæði eigið geðheilbrigði og annarra. Tímalengd og innihald námskeiða og fyrirlestra eru sniðin að þörfum hvers og eins.

  Nánari upplýsingar gefur Elín Ebba Ásmundsdóttir í gegnum vefpóst.

  Geðrækt var markaðssett á meðal landsmanna þann 10. október árið 2000 á sama hátt og líkamsræktin var markaðssett á sínum tíma. Verkefnið er forvarnar- og fræðsluverkefni. Frumkvöðullinn að geðræktinni var eldhuginn, Héðinn Unnsteinsson, en aðalstarf hans nú er sem sérfræðingur í Forsætisráðuneytinu. Héðni tókst á sínum tíma að ná saman einstaklingum, hvaðanæva úr samfélaginu, í lið með sér til að koma geðræktinni á koppinn. Hann var heppinn með tímasetningu því mikilvægi geðheilbrigðis á hagvöxt og hagsæld þjóða var orðin þekkt staðreynd. Geðrækt var samstarfsverkefni Geðhjálpar, Landlæknisembættisins og geðsviðs Landspítala Háskólasjúkrahúss. Lýðheilsustöð Íslands tók síðan við geðræktinni árið 2004. Markmið verkefnisins var og er að bæta líf allra landsmanna með vitundarvakningu, fræðslu og námskeiðum um geðheilbrigði og mikilvægi þess.

  Geðrækt einblínir á það sem er heilt og útgangspunkturinn er það sem fólk á sameiginlegt. Gott geð, sjálfsvirðing, sjálfstraust, trú á eigin áhrifamátt og jákvæð hugsun eru eftirsóknarverðir eiginleikar sem flestir vilja tileinka sér. Sérfræðiþekking og framfarir í heilbrigðismálum firra ekki fólk því að taka ábyrgð á eigin heilsu. Mikilvægi reglulegrar hreyfingar, rétts mataræðis, reglulegs svefns og streitustjórnunar fyrir heilsuna er vel þekkt. Geðræktin snýst hins vegar um hugann. Væntingar, tilfinningar og hugsanir hafa áhrif á heilbrigði. Vellíðan er sú tilfinning sem manneskjan finnur fyrir þegar hún hugsar jákvætt um sjálfan sig og aðra. Rannsóknir renna sífellt styrkari stoðum undir það að hugsun hefur áhrif á líðan og heilsufar. Heilinn er alveg ótrúlegt líffæri. Hugsanir og tilfinningar ráða því hvers konar samskipti heilinn á við líkamann. Heilinn á í stöðugum „samræðum“ við líkamann með hormónum sem ferðast með blóðrásinni. Heilinn getur sent skilaboð sem ýmist hafa slæm eða góð áhrif á heilsuna.

  Þjóðir Evrópu hafa áttað sig á því að geðraskanir og afleiðingar þeirra kosta þær u.þ.b. 3–4% af vergri þjóðarframleiðslu. Geðraskanir kosta Íslendinga a.m.k. 20 milljarða króna á hverju ári í beinum og óbeinum kostnaði. Umhverfis- og persónuþættir hafa áhrif á geðheilsu manna og þar er hægt er að hafa stjórn á mörgum þáttum. Fræðsla um geðrækt gefur almenningi verkfæri í hendur til að efla bæði eigið geðheilbrigði og annarra. Gott sjálfstraust, streitustjórnun, aðlögunarhæfni, góður aðbúnaður, jafnrétti, jafnræði, uppbyggileg samskipti og fordómaleysi, eru þættir sem hægt er að vinna með.

  Geðorðin 10 og geðræktarkassinn spruttu út frá geðræktinni og hafa staðist tímans tönn. Geðorðin tíu byggja á rannsóknum sem tengjast hamingju, vellíðan og velgengni. Geðorðin tíu eru eftirfarandi:

  1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara

  2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um

  3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir

  4. Lærðu af mistökum þínum

  5. Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina

  6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu

  7. Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig

  8. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup

  9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína

  10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast

  Geðræktarkassinn á að vera jafn sjálfsagður á hverju heimili og sjúkrakassinn. Innihald kassans er afar einstaklingsbundið og því ekki hægt að kaupa hann tilbúinn. Geðræktarkassann á að leita í þegar neikvæðar hugsanir skjóta upp kollinum. Með því að fara í kassann og draga upp hluti sem við vitum af reynslunni að hafa jákvæð áhrif á hugsun, getum við stýrt hugarfari okkar í jákvæðari farveg. Geðræktarkassinn notast líkt og sjúkrakassinn við minniháttar áföllum — t.d. eftir erfiðan vinnudag, rifrildi eða skammir. Hann má líka nota ef við erum undir miklu álagi, okkur leiðist, erum einmana eða vantar stuðning.

  Hugann er hægt að þjálfa eins og líkamann. Það tekur tíma og því æfðari sem við verðum í að ná tökum á eigin hugsunum, þeim meiri árangri náum við. Því er upplagt að byrja á því að aðstoða ungviðið við að útbúa sinn eigin geðræktarkassa. Ræða það sem hefur áhrif á hugsun, viðbrögð við neikvæðum hugsunum og hvað við getum gert til að hafa jákvæð áhrif á hugsun. Það sama á við um geðræktina og líkamsræktina, það er aldrei of seint að byrja.

  Til þess að gefa hugmynd um hvað slíkur kassi gæti innihaldið, má t.d. nefna góða bók, tónlist sem hefur jákvæð áhrif, myndskeið sem fær okkur til að hlæja, símanúmer hjá vini eða ættingja sem gott er að tala við, ljóð, myndir sem vekja upp jákvæðar minningar og blað og blýant til að skrifa okkur frá neikvæðum hugsunum.
  Geðræktarkassanum verðum við að taka ábyrgð á, útbúa sjálf og setja hluti í. Geðræktin á í harðri samkeppni við þaulhugsaða sölumennsku í alls konar útgáfum, þar sem sérfræðingar í þeim geira vinna markvisst að því að villa um fyrir heila okkar. Því yngri sem við erum, þeim mun móttækilegri erum við fyrir slíkum skilaboðum.

  Hugmyndin að Geðræktarkassanum
  Saga hvunndagshetju

  Geðrækt var markaðssett á meðal landsmanna þann 10. október árið 2000 á sama hátt og líkamsræktin var markaðssett á sínum tíma. Geðrækt var samstarfsverkefni Geðhjálpar, Landlæknisembættisins og geðsviðs Landspítala Háskólasjúkrahúss. Verkefnið var forvarnar- og fræðsluverkefni og var Geðræktarkassinn meðal þeirra verkefna sem unnin voru á fyrsta ári. Hugmyndin að kassanum fékk Elín Ebba Ásmundsdóttir þegar hún heyrði sögu 10 barna móður sem bjó á Akranesi upp úr aldamótunum 1900.

  Árið 1900 fluttu ung hjón, Ásmundur Þorláksson og Kristbjörg Þórðardóttir, á bæinn Fellsaxlarkot í Skilmannahreppi. Þetta var lítið kotbýli sem stóð niður við fjöruborð Grunnafjarðar. Hjónin áttu þá fimm börn og von var á því sjötta. Bústofninn var tvær kýr og nokkrir tugir kinda, auk nokkurra hrossa. Einnig var veruleg búbót að rauðmaga og grásleppu sem rak á land framan við bæinn. Vinnudagur þeirra hjóna var langur, eins og títt var á þeim tímum og fátæktin mikil. Kristbjörg sá um heimilishaldið og sinnti börnunum sem stöðugt fjölgaði. Árið 1907 fæddist þeim hjónum ellefta barnið, sem öll lifðu, en eitt barn hafði fæðst andvana. Það var mikill harmur, þetta sama ár, þegar Ásmundur veiktist skyndilega og varð óvinnufær og var hann að mestu rúmfastur þar til hann lést í apríl árið 1909, aðeins 38 ára gamall. Nú stóð Kristbjörg ein eftir með 10 börn, það elsta 14 ára og hið yngsta tveggja ára. Daginn eftir jarðarförina mættu þrír hreppsnefndarmenn og tilkynntu Kristbjörgu að þeir gerðu kröfu í búið og allar eigur þess yrðu seldar á uppboði. Það var skelfilegur dagur þegar Kristbjörg stóð með barnahópinn sinn á hlaðinu og horfði á fátæklegar eigur sínar boðnar upp og átti hún erfitt með að leyna hryggð sinni. Það var þó enn átakanlegra þegar hreppsnefndin leysti upp heimilið og ráðstafaði börnunum. Þrjú þau elstu fengu vist á nálægum bæjum en yngri börnin voru boðin upp eins og aðrar eigur Kristbjargar með öfugum formerkjum þó, því sá sem bauð lægst hlaut hnossið. Einn hreppsnefndarmannanna kvaðst sjálfur myndi taka Kristbjörgu til sín og mætti hún hafa tvo börn með sér. Kristbjörg þvertók fyrir þetta boð og varð henni ekki haggað. Hún hélt út á Akranes og leitaði til vina sinna sem buðu henni að dvelja hjá sér

  Sorg barnanna vegna föðurmissisins var sannarlega mikil og enn sárara að þurfa að skiljast við móður sína og hvert annað þegar þau tvístruðust milli bóndabæja. Kristbjörg átti erfitt með að sjá af börnunum sínum og var hrædd um þau. Henni hafði því hugkvæmst að útbúa lítið skrín handa hverju þeirra. Í það setti hún hluti sem voru þeim kær og efnisbút úr flík sem hún notaði mikið sjálf. Þegar hún kvaddi þau hvert af öðru í túnfætinum, sagði hún eitthvað á þessa leið: „Í hvert skipti sem ykkur líður illa og saknið okkar hinna skuluð þið fara út undir fjósvegg eða eitthvert sem þið getið verið ein og ótrufluð. Þar takið þið hlutina upp úr skríninu til að minna ykkur á góðu stundirnar sem við áttum þegar við vorum öll saman. Efnisbúturinn úr (skyrtunni) geymir lyktina af mér, ef þið eigið erfitt með að kalla fram andlit mitt. Skrínið á að minna ykkur á að ég mun koma aftur og sækja ykkur.“ Það liðu mörg ár áður en fjölskyldan sameinaðist á ný, en það tókst. Öll systkinin urðu dugnaðarforkar, héldu góðum tengslum hvert við annað á fullorðinsárum, lifðu við góða heilsu og urðu háöldruð.
  Heimild: (Æðrulaus mættu þau örlögum sínum. Bragi Þórðarson, Hörpuútgáfan, Akranesi 1996).

  Elín Ebba Ásmundsdóttir tengdist þessari fjölskyldu í gegnum föður sinn. Yngsta dóttir Kristbjargar var vinnukona í Borgarfirðinum. Með henni vann ung kona sem hafði orðið ófrísk eftir annan mann meðan eiginmaður hennar lá á dánarbeði. Konan var í öngum sínum því hún gat ekki alið barnið upp. Dóttir Kristbjargar sagði móður sinni frá þessu. Kristbjörg fann til með konunni og bauðst til að taka barnið að sér sem hún og gerði. Þetta barn var faðir Elínar Ebbu. Hann eignaðist síðan fjóra albræður en kynnist þeim ekki fyrr en hann var orðinn pabbi sjálfur. Kristbjörg og börn hennar tíu tóku meir og minna að sér uppeldið á drengnum. Hann ólst upp í mikilli ást og umhyggju og var hrókur alls fagnaðar sama hvert hann kom. Elín Ebba fékk að heyra sögur systkinanna af skrínunum, þegar hún var barn og skynjaði hve dýrmæt þau hefðu verið í þeirra augum. Skrínin með fáeinum hlutum hafði hjálpað þeim halda í vonina og trúna á að þau myndu sameinast á ný. Eins sýnir þessi saga mikilvægi þess að halda sér virkum þegar á móti blæs.

  Frásagnirnar urðu síðan innblástur til að útfæra hugmyndina um Geðræktarkassann. Þeir sem eru undir miklu álagi dvelja oft í neikvæðum hugsunum og eiga erfitt með að kalla fram jákvæðni og þar getur Geðræktarkassinn komið að góðum notum. Í kassann má safna hlutum sem kalla fram góðar minningar og geta hjálpað við að missa ekki vonina. Gott er að nýta hann á markvissan hátt og grípa til þegar neikvæðar hugsanir fara að gera vart við sig. Geðræktarkassinn á því að vera jafn sjálfsagður hlutur og sjúkrakassinn á hverju heimili. Innihald kassans er afar einstaklingsbundið og því ekki hægt að kaupa hann tilbúinn með ákveðinni uppskrift. Með því að fara í kassann og draga upp hluti sem við höfum sett í hann og vitum af reynslunni að hefur jákvæð áhrif á hugsun, getum við beint huganum í jákvæðari farveg.

  Geðræktarkassinn notast líkt og sjúkrakassinn við minni háttar áföllum, s.s. eftir rifrildi, eða skammir þegar okkur leiðist, erum einmana eða vantar stuðning. Hugann er hægt að þjálfa eins og líkamann, það tekur tíma og því æfðari sem við verðum að ná tökum á eigin hugsunum, því meiri árangri náum við. Því er upplagt að byrja að aðstoða ungviðið við að útbúa sinn eigin geðræktarkassa. Til að gefa hugmyndir um hvað slíkur kassi getur innhaldið er t.d. góð bók, tónlist sem hefur jákvæð áhrif, myndskeið sem fær okkur til að hlæja, símanúmer hjá vini eða ættingja sem gott er að tala við, ljóð, myndir sem vekja upp jákvæðar minningar, blað, blýantur eða pensill til að skrifa eða mála okkur frá neikvæðum hugsunum og svo framvegis.

  Umsögn vegna starfsdags fyrir starfsfólk búsetukjarna fyrir geðfatlaða
  Leiðbeinandi og fyrirlesari: Elín Ebba Ásmundsdóttir, iðjuþjálfi

  Undirrituð fékk Elínu Ebbu Ásmundsdóttur til að sjá um fræðslu á starfsdegi fyrir starfsmenn búsetukjarna fyrir geðfatlaða. Dagurinn var í alla staði hinn ánægjulegasti. Elín Ebba hóf daginn með hópefli, sem fól í sér hina ýmsu leiki þar sem starfsmenn nálguðust hver annan á nýjan hátt. Þetta gerði það að verkum að andrúmsloftið varð afslappað og þægilegt. Að því loknu hélt hún fyrirlestur um valdeflingu, en það er sú hugmyndafræði sem starfsmenn búsetukjarnanna vinna eftir. Í þeirri umræðu velti hún upp ýmsum hliðum hugmyndafræðinnar, sem gerði það að verkum að við sem á fyrirlestrinum vorum fengum aukna þekkingu og víðari sýn á starfið okkar. Einnig tengdi hún hugmyndafræðina við fordóma, áhrif lyfja á notendur og lausnir. Að endingu stýrði hún verkefnavinnu sem byggðist á samtölum starfsmanna, sem síðan var unnið úr í hópastarfi þar sem hóparnir unnu úr sínum hugmyndum. Þessi vinna heldur svo áfram í starfi okkar og verður notuð til þess að auka gæði starfs okkar ásamt því að nýtast í stefnumótun fyrir búsetukjarnana.

  Elín Ebba var með okkur allan tímann frá kl. 13–17, sem nýttist mjög vel og skilaði heildrænni niðurstöðu sem er gott veganesti fyrir áframhaldandi starf. Að mati okkar allra þá nýttist dagurinn vel. Við fengum staðfestingu á því að við erum á réttri leið, ásamt því að gefa okkur hugmyndir að áframhaldandi vinnu með geðfötluðum, auknum áhuga og aukinni innsýn í heim geðfatlaðra.

  Elín Ebba hefur þann áhuga og kraft sem þarf til að halda athygli starfsmanna. Hún er lifandi og skemmtilegur fyrirlesari með mikla þekkingu og reynslu sem gerir það að verkum að löngun til að gera betur kviknar auðveldlega.

  Forstöðumaður búsetuþjónustu fyrir geðfatlaða

  Valdefling í verki

  Hlutverkasetur tók að sér að halda fræðsludaga fyrir almenning víða um land, um valdeflingu, notendarannsóknir, batahvetjandi þjónustu og reynslu notenda.

  Valdefling snýst um að breyta sjálfskilningi t.d. þeirra sem þurfa á einhvers konar aðstoð að halda, að þeir sjái sig sem einstaklinga sem hafi rétt til að bregðast við þjónustuveitendum, skipulagi og stjórnun þjónustunnar, aðstoðinni sem þeir fá og því lífi sem þeir kjósa að lifa. Valdefling er huglæg tilfinning, sem í gegnum tengsl, ýtir undir sjálfsákvörðunarrétt, sjálfsvirðingu og sjálfsmat og hefur áhrif á félagsstöðu. Hugtakið valdefling tengist því lífsgæðum og mannréttindum. Valdefling getur byrjað í grasrótarstarfi, út frá stefnumótun stjórnvalda eða þjónustukerfa — eða verið sem hluti af félagslegri íhlutun.

  Sextán málþing voru haldin frá árinu 2007-2011, þar sem erindi, fræðsluefni og vinnusmiðjur voru haldnar í tengslum við hugmyndafræði valdeflingar, niðurstöður notendarannsókna, bæði innlendum og erlendum, og réttindamálum geðfatlaðra. Sveitarstjórar voru fundarstjórar og fulltrúar frá Félags- og tryggingamálaráðuneytinu voru með innlegg um stefnumótun í málaflokknum. Vinnusmiðjur voru haldnar til að fundargestir öðluðust tækifæri til að tjá sig nánar og yfirfæra nýja þekkingu á eigin vinnustað eða umhverfi.

  Ræðumenn, auk starfsfólks Hlutverkaseturs, komu frá atvinnulífinu, sveitarstjórnum, endurhæfingarúrræðum, löggæslu, félags- og heilbrigðisþjónustunni, frá aðstandendum og ekki síst notendum sjálfum. Málþing voru haldin á Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum, Höfn, Sauðárkróki, Húsavík, Suðurnesjum, Hafnarfirði, Neskaupsstað, Vestmannaeyjum, Selfossi, Borgarnesi og á Grundartanga. Rauði kross Íslands gerðist samstarfsaðili í tengslum við átak þeirra Byggjum betra samfélag og Háskólinn á Akureyri kom að sem samstarfaðili meðan Elín Ebba Ásmundsdóttir vann jafnframt þar í dósent stöðu.

  Stuðningur við atvinnuþátttöku

  Rúmlega helmingur örorkulífeyrisþega glímir við geðræn- og/eða stoðkerfisvandamál. Flestir þeirra vilja og geta unnið að ákveðnu marki en fáir sækja þó út á vinnumarkaðinn; treysta sér ekki í fullt starf, óttast að glata bótum, bera lítið úr býtum vegna skerðingarákvæða almannatryggingalaga eða þeim býðst ekki sá stuðningur sem þeir telja sig þurfa.

  Útrás var verkefni á vegum Hlutverkaseturs 2010 – 2019. Markmið þess var að auka þátttöku fólks með langvarandi geðraskanir á vinnumarkaði, auka skilning og þekkingu á þörfum þeirra og vinna gegn fordómum og mismunun. Einstaklingar hafa ósjaldan slæma reynslu af vinnumarkaði, þeir hafa lítið sjálfstraust eða trú á eigin getu, eru óvirkir, kljást við eigin fordóma og annarra og hafa óraunhæft mat á hvað séu eðlilegar tilfinningar. Vinnuveitendur eru líka óöruggir gagnvart þessum hópi og þurfa stuðning til að vinna úr örðugleikum og efasemdum sem upp geta komið.

  Sylviane Pétursson, iðjuþjálfi, hóf þessa útrás árið 2010 og var umsjónarmaður verkefnisins. Hún hafði unnið í þrjá áratugi við starfsendurhæfingu á geðsviði Landspítala Háskólasjúkrahúss. Árið 2010 starfaði Sylviane með hópi notenda sem hafði reynslu af vinnumarkaðnum. Hópurinn greindi hindranir og nauðsynlegan stuðning svo ættu afturkvæmt á vinnumarkaðinn.

  Árið 2011 fékk Sylviane, Hlyn Jónasson, markaðsstjóra og sjálfboðaliða, í lið með sér sem tengilið við vinnumarkaðinn. Sú samvinna gekk vel. Leitað var samstarfs við VIRK, ASÍ, BSRB, BHM, KÍ, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, lífeyrissjóði, TR, ÖBÍ, Geðhjálp og faghópa. Hlutverkasetur fékk styrk frá VIRK til að þróa verkefnið áfram.

  Hlynur var ráðin til VIRK til að ná til stærri hóps. Hann vann sem atvinnráðgjafi á endurhæfingardeild Geðdeildar LSH á Laugarási. Hann nýtti sér IPS, hugmyndafræðina sem var í samhljóm við Útrásar verkefnið. Þar er unnið eftir áhuga viðkomandi einstaklings og fundin vinna við hæfi og stuðningurinn fer fram á vinnustaðnum. Hlynur starfaði í nokkur ár á Laugarási, fór í framhaldinu að vinna hjá Reykjavíkurborg sem atvinnutengill og svo hjá Heilsugæslunni en er kominn aftur á Laugarásinn. Andri Vilbergsson, iðjuþjalfi tók við af Hlyn og starfaði með Sylviane þar til hún fór á eftirlaun 2019. Hann hóf störf hjá Reykjavíkurborg í lok árs 2020.