Um Hlutverkasetur

    Hlutverkasetur býður upp á umgjörð, hvatningu og stuðning fyrir þá sem vilja viðhalda virkni á markvissan hátt eða auka lífsgæði sín. Stefnt er að því að viðhalda eða efla sjálfsmynd einstaklinga í gegnum verkefni, fræðslu og umræðu. Markmiðið er að komast út á almennan vinnumarkað, hefja nám eða auka lífsgæði. Leiðarljós Hlutverkaseturs er virk samfélagsþátttaka, að sinna hlutverkum sem gefa lífinu tilgang og þýðingu, jákvæðni og kímni.

    Eitt af því mikilvægasta í lífinu fyrir flesta er þátttaka í atvinnulífinu, það að hafa hlutverk. Vinnan hefur ekki aðeins fjárhagslegan ávinning heldur hefur hún einnig félagslegt gildi og er hluti af daglegu skipulagi. Starfsemi Hlutverkaseturs er mikilvægt samfélagsverkefni sem aðstoðar einstaklinga sem einhverra hluta vegna, tímabundið eða til lengri tíma, geta ekki stundað nám eða verið í vinnu. Einstaklingar með skerta starfsgetu — og þeir sem hafa verið lengi án atvinnu — missa oft vonina, því þeir trúa því ekki að þeir eigi erindi á vinnumarkaðinn.

    Langtímaatvinnuleysi hefur slæm áhrif á líðan fólks. Ungt fólk, sem hefur enga atvinnusögu, stundar hvorki vinnu né skóla, er sérstaklega viðkvæmt. Þörfin á að koma til móts við þessa hópa er brýn til að fyrirbyggja heilsubrest, niðurbrot og til að einstaklingar skili sér aftur út á vinnumarkaðinn þegar atvinnu er að fá og þeir eru tilbúnir til að taka þátt.

    Félagið AE starfsendurhæfing sem rekur Hlutverkasetur var stofnað í maí 2005 en eiginleg starfsemi hófst á árinu 2006. Árið 2007 var starfsemin flutt í Lækjargötu 4 en flutti síðan um sumarið sama ár að Laugavegi 26. Í nóvember 2009 var síðan flutt í Borgartún 1 þar sem Hlutverkasetur er enn til húsa.

    Tilgangur félagsins er rekstur atvinnuendurhæfingar, að efla virkni og þátttöku fólks sem misst hefur hlutverk eða tilgang í lífinu. Þess vegna víkkaði Hlutverkasetur út starfsemi sína og opnaði hana fyrir atvinnuleitendur í kjölfar efnahagshrunsins.

    Hlutverkasetur leggur áherslu á að allir geti lagt eitthvað af mörkum og hafa því margir boðið fram krafta sína og þekkingu, bæði atvinnuleitendur sem og fólk sem er í vinnu. Þessi viðbót hefur haft jákvæð áhrif á starfsemi Hlutverkaseturs. Atvinnuleitendur eru góðar fyrirmyndir og hvati fyrir aðra og hafa þeir aukið fjölbreytileikann í starfinu.

    Hlutverkasetur er í samstarfi við og styrkt af ótal aðilum innan félags- og heilbrigðisgeirans, Reykjavíkurborgar, atvinnu- og menntastofnana, verkalýðsfélaga sem og af einstaklingum.

    Markmið Hlutverkasetur

    • að styðja þá sem misst hafa hlutverk við að ná þeim aftur eða uppgötva ný
    • að nýta þekkingu og reynslu fólks
    • að auka lífsgæði
    • að auka þátttöku í samfélaginu
    • að draga fram þau margföldunaráhrif sem verða til þegar einstaklingar ná stjórn á eigin lífi
    • að sýna fram á mikilvægi umhverfisþátta
    • að draga úr fordómum

    Leiðir

    • hugmyndafræði valdeflingar (empowerment) og líkansins um iðju mannsins (MOHO)
    • þekking notenda og fagfólks er lögð til grundvallar og unnið út frá jafningjagrunni
    • varpað er ljósi á hvetjandi leiðir
    • unnið er út frá forsendum hvers og eins, vilja og áhuga
    • störf og ýmis verkefni
    • stuðningur við atvinnuleit og aðlögun á vinnustað
    • eftirfylgd