Um Hlutverkasetur

Hlutverkasetur býður upp á umgjörð, hvatningu og stuðning fyrir þá sem vilja viðhalda virkni á markvissan hátt eða auka lífsgæði sín. Stefnt er að því að viðhalda eða efla sjálfsmynd einstaklinga í gegnum verkefni, fræðslu og umræðu. Leiðarljós Hlutverkaseturs er virk samfélagsþátttaka, aukin lífsgæði og að þátttakendur sinni hlutverkum sem gefi lífnu tilgang og þýðingu, hvort sem er innanhúss, á vinnumarkaði eða í námi.

Eitt af því mikilvægasta í lífinu er að hafa hlutverk. Starfsemi Hlutverkaseturs er mikilvægt samfélagsverkefni sem aðstoðar einstaklinga sem einhverra hluta vegna, tímabundið eða til lengri tíma, hafa misst sín hlutverk, t.d. í starfi eða námi.  Einstaklingar með skerta starfsgetu — og þeir sem hafa verið lengi án atvinnu — missa oft vonina, því þeir trúa því ekki að þeir eigi erindi á meðal fólks. Þar sem vinna hefur ekki aðeins fjárhagslegan heldur einnig félagslegan ávinning er mikilvægt að vera í styðjandi umhverfi á meðan þú finnur út næstu skref.

Hlutverkasetur var stofnað í maí 2005 og starfsemi hófst 2006. Starfssemin byrjaði í Lækjargötu 4 en flutti um sumarið 2007 að Laugavegi 26. Í nóvember 2009 var síðan flutt í Borgartún 1 þar sem Hlutverkasetur er enn til húsa.

Hlutverkasetur leggur áherslu á að allir geti lagt eitthvað af mörkum og hafa því margir boðið fram krafta sína og þekkingu. Þessi viðbót hefur jákvæð áhrif á starfsemina.

Hlutverkasetur er í samstarfi við og styrkt af Vinnumálastofnun (VMST), Reykjavíkurborg, stofnunum innan félags- og heilbrigðisgeirans og einstaklingum.

Markmið Hlutverkasetur

  • að styðja þá sem misst hafa hlutverk við að ná þeim aftur eða uppgötva ný
  • að nýta þekkingu og reynslu fólks
  • að auka lífsgæði
  • að auka þátttöku í samfélaginu
  • að draga fram þau margföldunaráhrif sem verða til þegar einstaklingar ná stjórn á eigin lífi
  • að sýna fram á mikilvægi umhverfisþátta
  • að draga úr fordómum

Leiðir

  • hugmyndafræði valdeflingar og líkansins um iðju mannsins (MOHO)
  • þekking notenda og fagfólks er lögð til grundvallar og unnið út frá jafningjagrunni
  • varpað er ljósi á hvetjandi leiðir
  • unnið er út frá forsendum hvers og eins, vilja og áhuga
  • störf og ýmis verkefni
  • stuðningur við atvinnuleit og aðlögun á vinnustað
  • eftirfylgd