Reynslusögur frá Hlutverkasetri

    Einstaklingar deila sögu sinni, reynslu og upplifun af staðnum

    Þegar ég missti vinnuna, þá hafði ég í fyrstu alveg nóg að gera við vinnu á heimilinu við að ganga frá ýmsu sem hafði dregist um einhvern tíma. Svo fór ég að sinna gömlum áhugamálum, sem hafði verið ýtt aðeins til hliðar vegna annarra starfa til margra ára. Ég fór að sækja kvöldnámskeið í olíumálun, sótti fyrirlestra og fór á ýmis námskeið.

    Einhversstaðar á leiðinni heyrði ég af Hlutverkasetri, þar væri hægt að fara á námskeið af ýmsu tagi, þátttakendum að kostnaðarlausu, sem kemur sér vel þegar um atvinnuleitendur er að ræða. Ég skráði mig fyrst á olíumálunarnámskeið hjá Önnu Henriksdóttur. Mér leist mjög vel á það, enda um frábæran kennara að ræða þar. Svo leiddi eitt af öðru.

    Ég hef farið á teikninámskeið, skrautskriftarnámskeið, trommuhring og síðast en ekki síst Photoshopnámskeið hjá Jósep Gíslasyni, þeim frábæra leiðbeinanda.

    Á vefsíðu Hlutverkaseturs er stundaskrá, þar sem fólk getur valið sér námskeið eftir áhugasviði. Svo er bara hægt að mæta á staðinn í kaffibolla og spjall, alveg frjálst, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum.

    Þegar ég hafði nýlega kynnst Hlutverkasetri bauðst mér að vera þátttakandi í þriggja daga vinnustofu, sem mætti kalla „leiklist til sjálfsræktar“ en það er einmitt nafnið á vikulegri tveggja tíma dagskrá sem Trausti Ólafsson er með í Hlutverkasetri. Þessi aðferð hefur verið nefnd Psychodrama, en á þessum vikulegu tímum hefur Trausti m.a. notað þá aðferð/stefnu.

    Þegar vel er boðið, þiggur maður með þökkum. Ég mætti á vinnustofuna alla þrjá dagana og get með sanni sagt að því sé ég ekki eftir. Þarna var mættur dágóður hópur af fólki með fjölbreyttan bakgrunn, nokkrir voru vinnandi í heilbrigðiskerfinu, sumir atvinnulausir og aðrir að glíma við burnout/kulnun í starfi, eða önnur andleg veikindi. Ég sjálfur var þarna vegna kulnunar í starfi og andlegra veikinda, kvíða og streitu, en ég reikna með að allir væru þarna komnir til að styrkja sjálfan sig, sem sagt að bæta líf sitt!

    Á þessum þremur dögum var mismunandi nálgun beitt á viðfangsefnið, mér fannst hópurinn sífellt styrkjast – sem heild (en í honum voru frá 12 til 20 manns) og einstaklingarnir fengu mikið út úr vinnunni. Persónulega er ég því feginn að hægt er að halda áfram með þessa vinnu í vikulegum tímum í Hlutverkasetrinu, þó sú vinna verði e.t.v. ekki eins ítarleg og á svona námskeiði. Mér finnst að á þann hátt sé faglega hliðin tryggari, að það sé möguleiki á eftirfylgni.

    Sjálfur hef ég unnið í heilbrigðiskerfinu síðustu níu árin (og 5-6 ár fyrr á ævinni) – en ég er Áfengis- og vímuefnaráðgjafi, mér fannst mjög traustvekjandi að fylgjast með faglegum vinnubrögðum kennaranna/hópstjóranna – Trausta og Maríu, sem á engan hátt var á kostnað innsæis og hlýju. Sem sagt; þetta voru frábærir hópstjórar sem við höfðum.

    Ég er ekki í neinum vafa um að starfsfólk í heilbrigðisgeiranum og reyndar víðar, gætu nýtt sér svona vinnustofur til að hindra burnout/kulnun í starfi og almennt til að bæta líf sitt. Þessa helgi sá ég og heyrði að vinnan hafði mjög góð áhrif á flesta þátttakendurna – og einhver jákvæð áhrif á alla. Ég mæli með „Leiklist til sjálfsræktar“ og þakka kærlega fyrir mig.

    Er ég missti vinnuna ákvað ég að nýta mér sumt sem var í boði byrjaði að fara inn á síðuna hjá Hlutverkasetri og fann námskeið í olíumálun. Ég hef aldrei komið nálægt neinu slíku, nema í barnaskóla fékk ég alltaf gott í myndlist.

    Svo að ég geri langa sögu stutta á er ég búin að mála sjö myndir og tvær þeirra farið á sýningu svo að ég er nokkuð ánægð. Ekkert af þessu hefði gerst ef ég hefði ekki haft þennan frábæra kennara hana Önnu. Hún hefur endalausa trú á manni svo að sjálfstraustið vex og maður fer að trúa að maður geti gert nánast allt.

    Þetta námskeið hjálpaði mér mjög í vetur, ég hafði alltaf eitthvað til að hlakka til í hverri viku. Ég verð Hlutverkasetri og Önnu ávallt þakklát fyrir að gefa mér tækifæri til að uppgötva þessa óvæntu hæfileika mína. Þið eru yndisleg, megið þið dafna í þessu göfuga starfi sem lengst!

    Hvað hefur Hlutverkasetur gert fyrir mig? Ég verð að segja að þegar ég heyrði fyrst um Hlutverkasetur vissi ég ekki á hverju ég ætti von. Læknirinn minn hafði beðið mig að kíkja á staðinn með opnum huga og með miklum semingi samþykkti ég að skoða staðinn. Ég bjóst ekki við að ég mundi finna þar eitthvað fyrir mig því ég hafði farið á netið og ekki litist á nein þeirra úrræða sem ég hafði skoðað.

    Ég mætti á föstudegi eftir hádegi, töluvert stressaður. Ég vissi ekki hvort læknirinn minn hefði haft samband og hvað þeim hefði farið á milli. Stressið var það mikið að það lá við að ég mætti ekki á staðinn en ég lét mig hafa það og mætti þarna um klukkan eitt á föstudegi og þar tóku þær Kristín, Helga og Ebba á móti mér. Kristín sýndi mér staðinn og útskýrði hvaða námskeið væru í gangi og við skoðuðum töfluna þar sem námskeiðin voru auglýst. Í framhaldi af því var útskýrt hvað væri ætlast til af mér. Ég gæti mætt á þeim tíma sem ég vildi og það væri ekki gerð nein krafa um að ég gerði eitthvað ákveðið, það væri algjörlega undir mér komið hvað ég vildi gera innan Hlutverkasetursins og hvað ég nýtti mikið af úrræðum staðarins.

    Það að gera ekki neinar kröfur til mín um að vera á einhverju námskeiði eða að gera eitthvað ákveðið hentaði mér mjög vel, því ég var ekki tilbúinn á þeim tíma til að standa undir einhverjum kröfum um að gera eitthvað sérstakt, annars fengi ég enga þjónustu, samanber á sumum stöðum þarf maður að sanna sig fyrst til að fá þjónustu og ef þú sannar þig ekki á réttan hátt, þá fær maður enga þjónustu og er útilokaður frá þeirri þjónustu sem maður er að biðja um.

    Þetta frjálsræði sem er í Hlutverkasetri virkaði rosalega vel fyrir mig og þegar ég var tilbúinn að gera eitthvað, þá fékk ég frábæran stuðning frá öllum, frá hverjum og einum á sinn hátt. Ég vildi fara að skrifa sögu sem er búin að þvælast í hausnum á mér í ein þrjátíu ár og Ebba sagði mér að setjast við tölvuna og fara að skrifa, að það mundi eitthvað koma út úr því, bara skrifa þegar ég treysti mér til og svo þegar að ég vildi gera eitthvað annað, þá myndu þær hjálpa mér með þann stuðning sem ég þyrfti á að halda.

    Það sem mér hefur fundist best við Hlutverkasetur er að þegar einhver er tilbúinn að gera sér eitthvað til gagns, þá fær sá einstaklingur þá hvatningu og þann stuðning sem hann þarf til að gera það að veruleika, án þess að vera með of mikinn þrýsting á sig. Fljótlega fór ég að fara á hin ýmsu námskeið og hef haft mjög gaman af þeim og svo er líka gott stundum að gera ekki neitt og bara setjast niður og tala um þau mál sem efst eru á baugi á hverjum tíma. Mér virðist það vera sérstaða Hlutverkaseturs að þar kemur fólk á sínum forsendum og það getur komið á þeim tíma sem það vill. Það að fá þann stuðning og þá hvatningu sem það þarf á þeim tíma þegar fólk vill, það virðist virka best.

    Ef ég á að segja hvað sé það mikilvægasa sem Hlutverkasetur hefur gert fyrir mig, þá er það sjálftraustið sem hefur aukist töluvert. Ég er orðinn öruggari með mannleg samskipti þann tíma sem ég hef verið í Hlutverkasetri. Ég hef séð marga koma hér í Hlutverkasetur niðurbrotna, en svo eftir smá tíma hefur maður séð sjálftraustið aukast hægt og rólega og það er mjög mismunandi hvað fólk þarf að mæta mikið til að maður sjái áberandi mun. Ég get haldið svona áfram en ég læt þetta duga að sinni. Þetta er mín saga varðandi Hlutverkasetur.

    Þegar þú átt hvorki fyrir mat né lækniskostnaði og öðrum nauðsynjum, og ert algjörlega upp á aðra komin, fer maður að upplifa sig sem annars flokks borgara, ég hef staðið í biðröð eftir mat í tvo klukkutíma. Aldrei bjóst ég við því að staða mín í velferðarsamfélaginu á Íslandi yrði sú að ég yrði að betla mat. Sjálfsmyndin er brotin, maður lifir á kerfinu og stendur í biðröð til þess að geta gefið börnunum sínum að borða.

    Þegar svona er komið fyrir manni fer maður ekkert út að lyfta sér upp, skömmin sem fylgir þessum aðstæðum veldur því að fólk dregur sig inn í skel og finnst erfitt að umgangast þá sem hafa vinnu eða meiri fjárráð en maður sjálfur. Sjálf var ég oft bitur út í vini mína, skildi ekki afhverju mér var úthlutað það hlutverk að vera fátæk, og að geta ekki tekið þátt í samfélaginu og því sem vinirnir voru að gera… ég hef einfaldlega ekki efni á því! Eftir smá tíma hættir fólk að hringja og bjóða manni með, því að maður segir alltaf nei.

    Staða mín er þessi, ég er gott efni í öryrkja, enda bæði með líkamleg og andleg mein, ég er ómenntuð einstæð móðir og stend ekki vel félagslega. Kerfið hefur ekki reynst mér illa og ég hef þegið þau úrræði sem hafa verið í boði fyrir mig. Eftir útskrift af Hvítabandinu/dagdeild geðdeildar, fór ég að stunda Hlutverkasetrið. Í fyrsta skiptið í langan tíma hef ég tilgang og smá hlutverk í samfélaginu sem mig langar svo mikið til að leggja mitt af mörkum til.

    Við sem erum fátæk og þessvegna oft á tíðum félagslega einangruð eigum Hlutverkasetrið sem samastað, þar kemur saman fólk úr öllum þjóðfélagsstéttum, fólk í atvinnuleit, rétt eins og sjúklingar. Það eitt og sér gerir Hlutverkasetrið að sérstökum stað, ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á það hversu mikilvægt það er fyrir fólk í bata eða fólk sem á sér enga von um að snúa aftur á vinnumarkaðinn að umgangast heilbrigt fólk, ef svo má að orði komast. Það er að segja að vera í blönduðum hópi og vera ekki alltaf að upplifa sig sem sjúkling.

    Í Hlutverkasetrinu er í boði fjölmörg námskeið s.s. myndlist, yoga, stærðfræði, magadans, leirlist, að hlusta á líkama sinn, að sækja um vinnu, viltu efla tengslanet þitt og svo lengi mætti telja. Þau eru eins fjölbreytt eins og þau eru mörg en það sem mestu skiptir er að þau eru okkur sem stunda setrið að kostnaðarlausu. Sjálf sæki ég eitt námskeið, en ég mæti í Hlutverkasetrið fjórum sinnum í viku. Ég fer þangað til að hitta annað fólk, komast út úr húsi og til að gera gagn. Svo er annað sem mér finnst að verði að koma fram, á miðvikudögum er alltaf boðið uppá súpu og heimsins besta brauð á litlar 100 krónur. Ef áhugi er fyrir hendi er í boði að elda mat hina dagana,

    Hlutverkasetrið hefur tekið kostnaðinn á sig og ég hef aldrei borgað meira en 400 krónur fyrir vel útilátinn og girnilegan mat þar. Ég ætla að elda fyrir fólkið mitt á morgun því þar liggur eitt af áhugasviðum mínum þ.e.a.s. í eldamennsku.

    Hugmyndum mínum hefur ávallt verið vel tekið þar og ég sem og aðrir hvattir til að leggja okkar að mörkum, sýna frumkvæði og fá tækifæri til að láta ljós okkar skína. Ég get örugglega aldrei komið því í orð hversu mikið þessi staður og sú hvatning sem ég hef fengið þar hefur gert fyrir mitt sálartetur.

    Ég kom fyrst í Hlutverkasetur eftir misheppnaða tilraun til þess að fara á vinnumarkað aftur eftir veikindi. Dag einn með tilheyrandi þunglyndi, niðurbroti, sjálfsásökunum og vonleysi, birtist heima hjá mér gamall vinur. Hann sagði mér að fara í föt. Hann ætlaði að fara með mig á stað sem gæti reynst mér vel. Þar myndi ég hitta fólk sem líklega skildi betur en flestir aðrir hvað ég væri að ganga í gegnum. Ég lét til leiðast, hugsaði sem svo að ástandið gæti varla versnað.

    Í Hlutverkasetri var ég einfaldlega boðinn velkominn, sagt í stuttu máli hvað væri á boðstólum; námskeið, fræðsla og vinnustofur. Ég var hvattur til þess að mæta aftur, koma á hverjum degi í 2–3 vikur án takmarks eða tilgangs, án nokkurra kvaða, bara til þess að skoða, sjá hvernig mér líkaði við fólkið og staðinn. Ég mætti, sat og fylgdist með, hlustaði á samtölin og var látinn í friði — sem að skiptir í mínu tilfelli miklu máli.

    Þunglyndi og kvíði eru þess valdandi að fyrir mig eru öll samskipti erfið, sérstaklega í byrjun og því mjög mikilvægt að hlutirnir gerist á mínum hraða, að ég hafi frumkvæðið þegar að ég treysti mér til, annars hrekkur sálin í baklás, leggst upp í rúm og gælir við tilhugsunina um löngu tímabæran eigin dauða. Ég hafði einmitt verið í þeim þönkum þegar vinur minn kom og bauð mér í kaffi í Hlutverkasetur.

    Hægt og bítandi fór ég að taka þátt í starfseminni, fór að kynnast bæði starfsfólkinu og skjólstæðingunum, heyra sögur þeirra og læra af þeirra reynslu. Það er ekki ætlun mín að gera lítið úr eða gagnrýna önnur meðferðarúrræði en einhverskonar samanburður er óhjákvæmilegur, eigi saga mín að komast til skila og þá sérstaklega af hverju Hlutverkasetur hefur reynst mér betur en önnur úrræði.

    Eftir að hafa fengið greininguna, geðhvarfasýki, fyrir þremur árum síðan, hef ég skolast í gegnum hin ýmsu meðferðarúrræði og endurhæfingarprógrömm með takmörkuðum árangri. Lyfjagjöf bar ekki tilætlaðan árangur, aukaverkanir af lyfjunum voru verri en sjúkdómurinn og á endanum mat læknirinn að lyfin, sem að áttu að vera að hjálpa mér, sviptu mig lífsgæðum, frekar en að auka þau.

    Endurhæfing virtist mér alltaf vera á forsendum einhvers annars en sjálfs míns. Hún virtist fylgja formúlum, excelskjölum, sem að sögðu til um að eftir ákveðinn tíma í þessari eða hinni meðferðinni — og ákveðið margar mætingar í líkamsrækt — ætti ég að skila mér út á vinnumarkaðinn heill heilsu, tilbúinn í slaginn. Endurhæfingin virtist snúast einna helst um það að skila mér sem fyrst aftur út á vinnumarkað, en ekki um velferð eða langtíma heilsu mína. Í Hlutverkasetri var ég í fyrsta skipti spurður: „Hvað viltu gera? Hvaða hlutverki vilt þú gegna í samfélagi mannanna?“ Í Hlutverkasetri byrjaði endurhæfing á mínum forsemdum, endurhæfing sem að fyrst og fremst miðaði að því að bæta lífsgæði mín.

    Við notum mismunandi viðmið til þess að mæla árangur. Bankastjórinn mælir árangur í gróða, spretthlauparinn í bættum tíma, kennarinn í einkunum nemenda sinna. Árangur þess sem að þetta skrifar er mældur í vellíðan, eða kannski frekar fjarveru vanlíðunar, dögum, vikum og mánuðum, þegar allar hugsanir um svefninn langa eru víðsfjarri. Í Hlutverkasetri var markmiðið í upphafi ekki endurkoma á vinnumarkað, nám eða önnur augljós meðferðarmarkmið, heldur velferð mína! Fyrsta meðferðarmarkmiðið var að ég væri sáttur í eigin skinni, gæti farið í gegnum daginn án kvíða og örvæntingar. Það gefur jú augaleið að þegar að þessu markmiði hefur verið náð, fylgir í kjölfarið löngun og síðan geta til þess að takast á við önnur verkefni.

    Þegar ég fæddist var ég ekki velkomin í þennan heim. Ætlunin var að mamma færi í fóstureyðingu, en hún þorði það ekki, var hrædd um að verða með sektarkennd allt sitt líf. Ég grét mikið sem smábarn og mamma varð þunglynd. Hún sinnti mér samt þokkalega. Þegar ég eignaðist bróður, þá 2ja ára, minnkaði þolinmæði mömmu og ég varð „bíddu“ barn og mátti þola rasskellingar og ýmislegt í þeim dúr — bæði andlega og líkamlega.

    Þegar ég stækkaði var ég sendi í pössun hingað og þangað, því að það þurfti að hvíla hitt heimilisfólkið á mér. Þá bættist við grimmt kynferðisofbeldi, einelti í skóla og ég lærði að líka við viðbjóðslega framkomu í minn garð. Það kom að þeim tímapunkti að ég gat ekki meir. Ég reyndi nokkrum sinnum að enda líf mitt, greinilega ekki góð í því frekar en öðru.

    Þegar ég var ennþá unglingur ákvað ég að eignast barn. Þráði að einhver myndi elska mig og þyrfti á mér að halda. En ég klúðraði því og sinnti barninu ekki fyrr en það var 2ja eða 3ja ára. Ég eignaðist fljótlega fleiri börn og sótti í menn sem beittu mig ofbeldi og harðræði á allan hugsanlegan og óhugsanlegan hátt.

    Rúmlega tvítug ákvað ég að búa ein og einbeita mér að börnunum. Ég lokaði mig af, treysti á að Féló héldi mér uppi, gerði bara það sem var nauðsynlegt og orka mín fór í að halda lífi. Ári seinna var ég send í endurhæfingu. Átti erfitt með að passa þar inn, en eignaðist þar góða vinkonu. Eftir tæp þrjú ár á þeim stað var ég enn mjög skemmd og brotin. Ég missti áhugann á að mæta og lokaði meira og meira á heiminn.

    Ég kíkti samt af og til í kaffi og í eitt skipti var þar kona sem ég kannaðist við. Hún hvatti mig að kíkja í Hlutverkasetur. Ég tók áskoruninni og mætti — þó að mér litist ekkert á fólkið eða starfsemina í byrjun.

    Í stuttu máli hefur líf mitt eftir að ég fór að fara í Hlutverkasetur breyst helling. Í byrjun átti ég rétt fyrir mat og veit ekki hvernig við komumst af, því ég eyddi öllu strax í bull. Eftir að hafa mætt í þrjá mánuði lét ég skammta mér pening og fékk hjálp að borga niður skuldir. Í dag á ég nóg af peningum og er ekki með neitt í vanskilum. Ég hef líka öðlast meira sjálfstraust og löngun til að lifa. Þátttakan hefur gefið mér tækifæri til að hlakka til einhvers, hefur kennt mér að treysta og gefið mér svigrúm til að eflast í að vera ÉG sem ég hef ekki prufað áður.

    Ég hef eignast vini á svipuðum aldri. Vini, sem ætlast ekki til þess að ég geri eitthvað í staðinn fyrir þá, eins og að gefa þeim pening, sofa hjá þeim eða eitthvað álíka skrítið. Það var alveg nýtt fyrir mér. Ég fæ að taka þátt á mínum eigin hraða og mér er treyst fyrir hlutum sem ég hef ekki einu sinni látið mig dreyma um að gera. Ég fæ að vera með í verkefnum sem ég hélt að væri starfsfólkinu heilagt. Mér hefur verið treyst fyrir að semja texta, lesa yfir texta og skipuleggja dagskrá og margt fleira. Það er tekið mark á mér. Ég held að ég sé að farin fatta út á hvað þessi valdefling gengur og að vinna á jafningagrunni.

    Mér þótti það mjög óþægilegt fyrst þegar ég var skömmuð. Ég hef náð að fatta að það er hluti af því að reyna á mig, að standa með sjálfri mér og halda andliti í óþægilegum aðstæðum. Fyrir nokkrum árum hefði ég brotnað niður ef einhver hefði gagnrýnt mig, farið að gráta og aldrei komið aftur. Ég er að styrkjast mikið bara með því að mæta, fá að vera með og takast á við að vera manneskja.

    Að ég hafi tekið áskoruninni á sínum tíma að mæta í Hlutverkasetur hefur breytt viðhorfum mínum til míns sjálfs, til lífsins og til annarra. Mesti árangurinn er þó sú upplifun að ég sé börnum mínum góð móðir. Það er gott að til sé staður þar sem þú þarft að vera einstakur til að passa inn í.

    Enginn getur verið betri skipstjóri á mínu skipi en ég sjálfur, alveg óháð því hversu góður skipstjóri ég er, því enginn er í annars manns heila og þess vegna getur enginn annar vitað BETUR en ég sjálfur hvers ég þarfnast. Ég er á leiðinni, að læra þetta. Það er löng leið.

    Ég var fyrstu 45 ár ævi minnar upptekinn af því að þrífa og viðhalda skipinu mínu af öllum lífsins og sálarkröftum í samræmi við þarfir annarra svo að þeir gætu notað það og ferjað sig þangað sem þeir vildu. Þannig fékk ég þó að fljóta með, var ekki skilinn eftir einn og bjargarlaus í sjónum. Ástæðan fyrir því að ég lærði ekki að stjórna eigin skipi, var að ég þjónaði alltaf öðrum. Það var meðfædd tilhneiging til að bregðast við hræðslu. Þar sem aðstæður mínar til að ná tilfinningaþroska frá 0 ára aldri, voru sérlega óheppilegar varð afleiðingin mjög alvarlegur kvíðasjúkdómur. Allar tilfinningar mínar voru svo kyrfilegar steyptar inn í hræðslu að ég þekkti þær ekki. En það vissi ég ekki. Orðin sem ég hafði um tilfinningalega vanlíðan voru óraunhæf og stanslausar sjálfsásakanir: „Ég er ekki nógu góður.“

    Sjúkdómurinn var vel falinn því skipið mitt/ég leit auðvitað ágætlega út og ég kunni að standa mig í stykkinu. Það tilheyrði munstrinu mínu þar eð að uppfylla kröfur annarra og gera helst betur en það og vera aflögufær, stór og sterkur og geta borgað fyrir mig.

    Fjörutíu og fimm ára var orkan mín búin, ég hafði engu að tapa lengur, stóð við grafarbakkann og þá loksins tókst mér að gera greinamun á orðunum EINN og SJÁLFUR. Einn og algjörlega múraður inn í hræðslusteypu komst ég ekki lengra á þessari jörðu. Ég var heppinn með sálfræðing og gat komið skipinu í réttan kjöl. Ég hafði verið óheppinn með samferðamenn og það fólk sem hafði haft mest áhrif á mig. Í samtölum við sálfræðinginn hófst leiðin, við að meitla upp flís fyrir flís hræðslusteypuna, að komast í gegnum hana, tengjast tilfinningum mínum, aftengja ranga kvíðastýrða hugsun, sem hafði lagst endanlega á allan heilann, eftir áfall, og læra að tengja tilfinningar mínar við raunhæfa hugsun. Það var löng leið, því heilinn er svo stórkostlega flókinn og tengingar svo ótal margar. Leiðina þurfti ég að ganga sjálfur en ekki einn. Hvílíkur reginmunur — og lífsbjörg að átta mig á því.

    Lífsins þræðir spunnust þannig að í dag er ég barnlaus ekkill, aðstandendalaus, kominn á eftirlaun eftir farsæla starfsævi eins og sagt er, fjárhagurinn er sæmilegur. Tel mig vera vel á leið kominn á bataleiðinni miðað við upphafsreitinn en ég þarfnast enn stuðnings. Ég upplifi enn „einmannahroll“, þessa gömlu tilfinningu að sú ógn steðji að mér „að drukkna einn, yfirgefinn og hjálparvana í sjónum.“

    Ég á enn ekki auðvelt með að þiggja og trúa því að þurfa ekki að borga með eigin sál fyrir að vera stjórnað af öðrum, að ég megi gefa af mér út frá eigin forsendum og líka sleppa því ef ég hef ekki löngun til þess. Ég spennist enn upp þegar ég segi við sjálfan mig eða aðra „Ég vil“ eða „Ég vil ekki“ og framkvæmi samkvæmt eigin vilja. Í dag geri ég það, en það tekur enn mikið á. Það er miserfitt eftir því hvert samhengið er og enn þarf ég mikla ró og hvíld.

    Síðastliðið haust þegar geðmál og geðveikindi voru áberandi í umræðunni vildi svo til að ég heyrði samtal í útvarpinu þar sem kona sagði frá þeim stuðningi sem hún fékk í Hlutaverkasetri. Hún var verktaki en tímabundið atvinnulaus milli verkefna. Þetta opnaði fyrsta fordómalásinn í mér. „Sú getur nú ekki verið alvarlega geðveik,“ hugsaði ég með mér. Já, ég gekk með sama fordóminn og mér fannst alltaf svo „óskiljanlegur“ hjá öðrum. Ég fann aldeilis fyrir honum um leið og orðið geðveikur snérist að sjálfum mér — ég afneitaði alltaf að ég væri geðveikur, það var „óraunhæf hræðsla“ sem var að mér, það hljómaði allt öðruvísi í mínum huga en að vera með geðsjúkdóm.

    Þetta samtal í útvarpinu hjálpaði mér við að takast á við fordómana og láta þá ekki stýra mér. Ég fór að velta fyrir mér hvort Hlutverkasetur væri kannski staður sem gæti hentað mér, að þarna gæti ég fundið þann stuðning sem ég þarf enn á að halda. Það að geta hitt fólk og spjallað og hlustað þegar ég hef þörf fyrir, án þess að þurfa fyrst að taka tillit til og uppfylla kröfur annarra. Að mega koma og fara ef og þegar ég vil, að vera ekki neyddur til þess að taka þátt í „prógrammi“ sem aðrir telja best fyrir mig heldur mega vera minn eigin skipstjóri og vera fullkomlega virtur sem slíkur. Að geta æft mig í mannlegum samskiptum í þeim skömmtum og á þann hátt sem ég er tilbúinn til. Að mega taka þátt í þeirri starfsemi sem í boði er, ef og þegar ég finn löngun til þess án allra skuldbindinga.

    Ég þurfti að anda djúpt, Ég fór á kynningarfund og fékk strax samkvæmt eigin ósk að tala í einrúmi við vinalegan, afslappaðan fulltrúa sem þekkti sjálfur til þess að standa við grafarbakkann — við þau orð hans snarminnkaði upphafsspennan í mér, mér fannst að ég stæði jafnfætis honum — ekki einhversstaðar einn og langt í burtu. Ég táraðist. Síðan komu kvíðalosandi tár þegar ég heyrði svarið „Já“ við öllum spurningum mínum: „Má ég …?“ Það var mikill léttir. Ég gat varla trúað því — og er enn að átta mig á því.

    Síðan þá fer ég í Hlutverkasetur í samræmi við eigin löngun og þörf. Þegar einmanahrollur sækir að mér þá gríp ég í „En ég get farið í Hlutverkasetur“ og þá er eins og ég nái að anda, kvíðinn hættir og ég fæ orku mína til eigin umráða og fer kannski að gera eitthvað allt annað — og ég má það.

    Fólkið sem kemur í Hlutverkasetur er ótrúlega blandaður hópur. Þar ríkir afslappað, heimilislegt andrúmsloft, ekki er hægt að vita hverjir eru notendur og hverjir starfsfólk nema spyrja. Fordómar mínir hverfa og ég finn að mér léttir í takt við það því fordómar og sjálfsdómar eru einn aðalþátturinn sem veldur mér kvíða og vanlíðan.

    Ekki dæma — ég held að þetta séu mest notuðu orðin mín undanfarin ár því það er það sem ég þarf enn að æfa mig í — fyrst og fremst gagnvart sjálfum mér. Að dæma ekki sjálfan mig heldur skilja mig og samhengið mitt er jú forsendan fyrir því að geta líka sleppt dæmandi hugsun gagnvart öðrum. Að nota lýsandi orð, ekki dæmandi, láta eiga sig það sem ég skil ekki eða reyna að skilja með því að sjá samhengi og umgangast aðra kvíðalaus.

    Hlutverkasetur er mér mikilvægur staður þar sem ég fæ stuðning til að æfa mig í þessum atriðum og í því að ná tökum á því að vera minn eigin besti mögulegi efstráðandi skiptstjóri.

    Brauð og leikar fyrir lýðinn…!“ Eru gömul sannindi frá tímum Rómverja til að hafa pöpulinn hamingjusaman og „auðstjórnanlegri…“ sem alveg furðanlega margir vilja gleyma í dag…!
    Nú hef ég, í mínu atvinnuleysi og aumingjaskap, notið þess að geta sótt í aðstöðu sem af stöðugri fórnfýsi er rekið í „nánast“ sjálfboðavinnu… Sú aðstaða er Hlutverkasetur, Borgartúni 1, Reykjavík. Ég mæli eindregið með þeirri starfsemi.
    Hlutverkasetur er ætlað öllum þeim sem ætla sér eitthvað annað í lífinu en að sitja heima og bíða eftir að heimurinn og lífið lagist… eða einsog segir á heimasíðu Hlutverkaseturs: Fyrir fólk sem misst hefur vinnuna, eða önnur mikilvæg hlutverk í samfélaginu, og vill taka þátt í að byggja upp jákvætt umhverfi, koma reglu á lífið, og kynnast fólki í svipuðum aðstæðum. Í gegnum þátttöku í verkefnum deilum við hugmyndum og vinnum saman…
    Ég rak mig s.s. á það í byrjun atvinnuleysis að aðstaða fyrir venjulegt fólk í samfélaginu, sem er í svipaðri stöðu og ég, er nánast ekki nein. Það vantaði tilfinnanlega einhvers konar félagsmiðstöð fyrir fólk í óvissu með sjálfan sig og framtíð sína. Forvarnir, úrræði og lausnir gagnvart andlegu heilbrigði einstaklingsins er því miður fáránlega lítil hérna á Íslandi.
    Eitthvað sem maður hefði búist við að stéttarfélögin myndu aðstoða við og hjálpa uppá. En, nei. Þegar maður talar um svoleiðis við fulltrúa þessara stéttarfélaga þá fær maður bara svipuð svör. „Fólk getur, og á, að hittast á kaffistöðum og veitingahúsum til að spjalla.“ Og eru því stéttarfélögin farinn að passa uppá hið „heilaga einkaframtak“ og rekstur í þjóðfélaginu?!?
    Nú er ég veitingamaður sjálfur og hef þess vegna fylgst vel með þegar AA-fólki hefur verið vísað frá veitingahúsum vegna „ekki réttu“ viðskiptana á þeim veitingastöðum og kaffihúsum sem þau hafa verið að sækja. Því auðvitað þrífst ekki veitingarekstur nema hann skili hagnaði. Einsog allur annar rekstur!
    Það þarf s.s. að eiga peninga til að geta leyft sér að hitta fólk á veitingastöðum. Og svoleiðis eiga atvinnulausir ekki til!
    Það er mér illskiljanlegt hversu dystópískir ráðamenn þjóðarinnar eru fyrir þessu. Því mín stétt í þjóðfélaginu er stöðugt að stækka. Það er bara falið með því að skrá fólk í skóla, á námslánum jafnvel, eða er ekki lengur skráð atvinnulaust vegna þess að það er sett á Tryggingarstofnun sem öryrkjar vegna langtímaatvinnuleysis. Þannig er hægt „nefnilega“ að halda atvinnuleysistölum niðri!
    Það er að öllu framansögðu óskiljanlegt að sveitarfélögin, sem og aðrir í þjóðfélaginu, skuli ekki bæta úr aðstöðu þeirra sem glíma við hlutverkaleysi í nútímasamfélagi. Sérstaklega þegar gömul sannindi, eins og þau sem ég vitnaði í, í byrjun frá dögum Rómverja, eru talin grunnþáttur í rekstri þjóðfélaga.
    Hvar ætli allt þetta fólk hafi farið í skóla?

    Við sem höfum stundað Hlutverkasetur settumst niður og ákváðum að setja á blað, af hverju við stunduðum Hlutverkasetur. Eitt er að vita og finna innra með sér hver ástæðan er og annað að koma því á blað svo vel sé. Hér skal reynt, af bestu getu, að gera grein fyrir tilfinningum okkar.

    1. Af hverju stunda ég Hlutverkasetur?
    Þjóðfélagsþegnum verður það æ betur ljóst hversu einmanalegt og niðurdrepandi það er fyrir fólk að vera aleitt heima vikum og mánuðum saman. Þeir sem hafa barist við þunglyndi og kvíða hafa reynslu af slíkri upplifun og vita hvað þessi tími getur verið ömurlega erfiður. Hinir sem hafa misst vinnu og/eða dottið út úr skóla vegna veikinda eiga ekki síður erfiða tíma og oftast fer það svo að viðkomandi liggur út af, meiri huta dagsins, og ekkert verður úr verki. Þegar fólk er komið í þá aðstöðu að fara aldrei út að hreyfa sig, hittir mjög sjaldan eða aldrei annað fólk og hefur enga eirð til að lesa eða stunda nám þá er voðinn vís, nema eitthvað sérstakt gerist í þjóðfélaginu til að bjarga málum. Við teljum okkur hafa verið svo heppin að finna þetta „sérstaka.”

    Hlutverkasetur hvetur okkur til að fara á fætur að morgni og við lítum á það sem okkar vinnustað á meðan við erum að ná upp nægilegri orku til að drífa okkur aftur út. Í raun verður því ekki með orðum lýst hversu mikilvægt það er að hafa stað eins og Hlutverkasetur, þar sem alltaf bíða manns verkefni og góðir vinnufélagar og leiðbeinendur.

    2. Hvert er markmiðið með veru okkar hér?
    Fyrst og síðast er markmiðið að ná fyrri virkni, orku og heilsu. Jafnframt vitum við öll, af eigin reynslu, að það er mikið áfall, þegar maður áttar sig á því, einn góðan veðurdag, að fyrri orka er horfin og við fyllumst vonleysi, því enginn veit í raun hvenær hún kemur aftur. Hér hvetjum við hvert annað og starfsfólkið heldur með okkur fundi og hvetur okkur áfram.

    Ekki má gleyma að hér vinna starfsmenn, í fullu samráði við okkur, að því að byggja upp námskeið, sem verða okkur til framdráttar, þegar við förum aftur að sækja um vinnu og/eða skóla. Má þar nefna námskeið í; myndlist, vélritun, Powerpoint. Powerpointnámskeiðið er einnig hugsað til að við æfumst í að koma fram og ræða við lítinn hóp, svara fyrirspurnum og reyna að sigrast á þeim kvíða sem fylgir því að standa upp og tala.
    Einnig hefur verið boðið upp á námskeið í sjálfsstyrkingu, leiklist, samskiptum, meðvirkni og venjumótun.

    3. Hvar værum við ef ekkert Hlutverkasetur væri til?
    Vissulega eru til fleiri staðir, sem vinna að velferð þeirra, sem glíma við sálfélagsleg vandamál. Kannski væru einhver okkar þar, en enginn vafi er heldur á því að sum okkar væru á geðdeild og önnur væru heima og hreyfðu sig jafnvel ekki úr húsi. Það er því ljóst að Hlutverkasetur hefur verið ómetanlegt fyrir okkur.