Elín Ebba Ásmundsdóttir

Elín Ebba Ásmundsdóttir

Varamaður

Elín Ebba Ásmundsdóttir, framkvæmdastjóri Hlutverkaseturs, hefur unnið við geðheilbrigðismál allt frá árinu 1979. Fyrst á geðdeild í Noregi, síðan á dagdeild Borgarspítalans og lengst af sem forstöðumaður iðjuþjálfunar geðsviðs LSH. Frá 1999–2017 starfaði hún einnig sem dósent við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri. Rannsóknarnálgun hennar var bata- og notendarannsóknir innan geðræktar.

Hún lauk handleiðslunámi fyrir fagfólk árið 1988, meistaraprófi í iðjuþjálfun við Florida International University í Miami í Bandaríkjunum árið 1998 og diplóma í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands árið 2009.

Elín Ebba hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín og tekið þátt í fjölmörgum samstarfsverkefnum á sviði geðheilbrigðismála sem vakið hafa töluverða athygli. Hún hefur beint orku sinni í að breyta viðhorfum almennings til einstaklinga með geðraskanir, unnið að geðræktarmálum og barist fyrir fjölbreyttari valkostum í meðferðarnálgunum.

Elín Ebba hefur haldið fjöldann allan af erindum, námskeiðum og komið fram í fjölmiðlum í tengslum við málaflokkinn ásamt því að skrifa greinar um hann. Hún er hress, viðræðugóð, fordómalaus og opin og er þekkt fyrir sérstæðan og skrautlegan fatasmekk. Áhugamál hennar eru geðheilbrigðismál og bætt líðan almennings og hún getur talað endalaust um þessi hugðarefni sín.