Reykjavík, 8. maí 2013

ÚTRÁS
Atvinnuþátttaka geðfatlaðra
Hlutverkasetur kynnir

Árið 2011 greiddu Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðirnir liðlega 40 milljarða í örorkulífeyri. Rúmlega helmingur örorkulífeyrisþega glímir við geðræn- og/eða stoðkerfisvandamál. Flestir þeirra vilja og geta unnið að ákveðnu marki en fáir sækja þó á vinnumarkaðinn; treysta sér ekki í fullt starf og/eða óttast að glata bótum eða bera lítið úr býtum vegna skerðingarákvæða almannatryggingalaga, eða þeim býðst ekki sá stuðningur sem þeir telja sig þurfa.

ÚTRÁS er verkefni á vegum Hlutverkaseturs. Markmið þess er að auka þátttöku geðfatlaðra á vinnumarkaði, auka skilning og þekkingu á þörfum þeirra og vinna gegn fordómum og mismunun. Geðfatlaðir hafa ósjaldan slæma reynslu af vinnumarkaði, þeir hafa lítið sjálfstraust eða trú á eigin getu, eru óvirkir, kljást við eigin fordóma og annarra og hafa óraunhæft mat á hvað séu eðlilegar tilfinningar. Vinnuveitendur eru líka óöruggir gagnvart þessum hópi og þurfa stuðning til að vinna úr örðugleikum og efasemdum sem upp geta komið.

ÚTRÁS hefur þekkingu og reynslu í þessum málaflokki. Sylviane Pétursson, iðjuþjálfi, hóf þessa útrás árið 2000 og er umsjónarmaður verkefnisins. Hún hefur unnið í þrjá áratugi við starfsendurhæfingu á geðsviði Landspítala Háskólasjúkrahúss. Hlutverkasetur var stofnað árið 2005 með það að markmiði að nýta reynslu og þekkingu geðsjúkra til atvinnusköpunar. Árið 2010 starfaði Sylviane með hópi notenda sem hafði reynslu af vinnumarkaðnum. Hópurinn greindi hindranir og nauðsynlegan stuðning svo geðfatlaðir ættu afturkvæmt á vinnumarkaðinn.

Árið 2011 fékk Sylviane, Hlyn Jónasson, markaðsstjóra og sjálfboðaliða í lið með sér sem tengilið við vinnumarkaðinn. Sú samvinna hefur gengið vel og hópurinn er tilbúinntil að færa út kvíarnar. Til að vel megi takast verður leitað samstarfs við VIRK, ASÍ, BSRB, BHM, KÍ, Samtök atvinnulífsins og -iðnaðarins, lífeyrissjóði, TR, ÖBÍ, Geðhjálp og faghópa.
Hlutverkasetur hýsir verkefnið og ber fjárhagslega og faglega ábyrgð.

ÚTRÁS mun leita samstarfs við opinber- og einkafyrirtæki. Stefnt er að ná samningum til þriggja ára um tiltekinn fjölda starfa. Hvert stöðugildi getur veitt 2-3 einstaklingum tækifæri til starfsþjálfunar eða launaðs starfs. Tryggja verður fjármagn fyrir kostnaði vegna tengiliða verkefnisins. Verkefnið verður jafnframt kynnt innan háskólasamfélagsins til að örva áhuga á rannsóknaverkefnum á þessu sviði. Lykilfólk í kynningarátaki verða einstaklingar sem hrökklast hafa af vinnumarkaði sökum geðraskana en náð að hasla sér þar völl á nýjan leik.

Nánari upplýsingar veitir:
Elín Ebba Ásmundsdóttir framkvæmdastjóri Hlutverkaseturs og dósent við Háskólann á Akureyri ebba@hlutverkasetur.is sími 6977471.