Enginn getur verið betri skipstjóri á mínu skipi en ég sjálfur

Smellið hér fyrir árangursmat 40 ára karlmanns af Hlutverkasetri

Smellið hér fyrir árangursmat móður af Hlutverkasetri

Smellið hér fyrir árangursmat atvinnuleitanda

Hér eru pdf linkar á símakannanir og þátttökuathuganir sem gerðar hafa verið í Hlutverkasetri frá 2009 – 2012:

Símakönnun gerð 2011 fyrir 2010

Þátttökuathugun 2011 Hlutverkasetur

Símmakönnun gerð 2012 fyrir árið 2011

Þátttökuathugun 2009 og 2010

Umsögn um 12 stunda leiklistarnámskeið sem haldið var í samvinnu Hlutverkaseturs og Atvinnuleikhúss áhugamanna, Norðurpólsins. Smellið hér til að lesa umsögn

Sigurbjörg Alda  Guðmundsdóttir 

Þegar ég missti vinnuna, þá hafði ég í fyrstu alveg nóg aðgera við vinnu á heimilinu við að ganga frá ýmsu sem hafðidregist um einhvern tíma. Svo fór ég að sinna gömlum áhugamálum, sem hafði verið ýtt aðeins til hliðar vegna annarra starfa til margra ára. Ég fór að sækja kvöldnámskeið í olíumálun, sótti fyrirlestra og fór á ýmis námskeið. Einhversstaðar á leiðinni heyrði ég af Hlutverkasetrinu, þar væri hægt að fara á námskeið af ýmsu tagi, þátttakendum að kostnaðarlausu, sem kemur sér vel þegar um atvinnuleitendur er að ræða. Ég skráði mig fyrst á olíumálunarnámskeið hjá Önnu Henriksdóttur. Mér leist mjög vel á það, enda um frábæran kennara að ræða þar. Svo leiddi eitt af öðru. Ég hef farið á teikninámskeið, skrautskriftarnámskeið, trommuhring og síðast en ekki síst Photoshopnámskeið hjá Jósep Gíslasyni, þeim frábæra leiðbeinanda. Á vefsíðu Hlutverkaseturs er stundaskrá, þar sem fólk getur valið sér námskeið eftir áhugasviði. Svo er bara hægt að mæta á staðinn í kaffibolla og spjall, alveg frjálst, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum.

Kristín, atvinnuleitandi

Er ég missti vinnuna ákvað ég að nýta mér sumt sem var í boði byrjaði að fara inn á síðuna hjá Hlutverkasetri og fann námskeið í olíumálun. Ég hef aldrei komið nálagt neinu slíku, nema í barnaskóla fékk ég alltaf gott í myndlist. Svo að ég geri langa sögu stutta á  er ég búin að mála 7 myndir og tvær þeirra farið á sýningu svo að ég er nokkuð ánægð. Ekkert af þessu hefði gerst ef ég hefði ekki haft þennan frábæra kennara hana Önnu. Hún hefur endalausa trú á manni svo að sjálfstraustið vex og maður fer að trúa að maður geti gert nánast allt. Þetta námskeið hjálpaði mér mjög í vetur, ég hafði alltaf eitthvað til að hlakka til í hverri viku.Ég verð Hlutverkasetri og Önnu ávalt þakklát fyrir að gefa mér tækifæri á að uppgötva þessa óvæntu hæfileika mína. Þið eru yndisleg, megið þið dafna í þessu göfuga starfi sem lengst.

Heilbrigðisstarfsmaður skrifar

Þegar ég hafði nýlega kynnst Hlutverkasetrinu bauðst mér að vera þáttakandi í þriggja daga vinnustofu, sem mætti kalla „leiklist til sjálfsræktar” en það er einmitt nafnið á vikulegri tveggja tíma dagskrá sem Trausti Ólafsson er með í Setrinu. Þessi aðferð hefur verið nefnd Psychodrama, en á þessum vikulegu tímum hefur Trausti m.a. notað þá aðferð/stefnu.
Þegar vel er boðið, þiggur maður með þökkum. Ég mætti á vinnustofuna alla þrjá dagana og get með sanni sagt að því sé ég ekki eftir. Þarna var mættur dágóður hópur af fólki með fjölbreytilegan bakgrunn, nokkrir voru vinnandi í heilbrigðiskerfinu, sumir atvinnulausir og aðrir að glíma við burnout/kulnun í starfi, eða önnur andleg veikindi. Ég sjálfur var þarna vegna kulnunar í starfi og andlegra veikinda, kvíða og streitu,  en ég reikna með að  allir væru þarna komnir til að styrkja sjálfan sig, sem sagt  að bæta líf sitt!
Á þessum þrem dögum var mismunandi nálgun beitt á viðfangsefnið,  mér fannst hópurinn sífellt styrkjast – sem heild (en í honum voru frá 12 til 20 manns) og einstaklingarnir fengu mikið út úr vinnunni. Persónulega er ég því fegin að hægt er að halda áfram með þessa vinnu í vikulegum tímum á Hlutverkasetrinu, þó sú vinna verði e.t.v. ekki eins ýtarleg og á svona námskeiði. Mér finnst að á þann hátt sé faglega hliðin tryggari, að það sé möguleiki á eftirfylgni.
Sjálfur hef ég unnið í heilbrigðiskerfinu seinustu níu árin(og 5-6 ár fyrr á ævinni) – en ég er Áfengis og vímuefnaráðgjafi, mér fannst mjög traustvekjandi að fylgjast með faglegum vinnubrögðum kennarana/hópstjóranna  Trausta og Maríu, sem á engan hátt var á kostnað innsæis og hlýju. Semsagt þetta voru frábærir hópstjórar sem við höfðum.
Ég er ekki í neinum vafa um að starfsfólki í heilbrigðisgeiranum og reyndar víðar, gætu nýtt  sér  svona vinnustofur til að hindra burnout/kulnun í starfi og almennt til að bæta líf sitt. Þessa helgi sá ég og heyrði  að vinnan hafði mjög góð áhrif á flesta þátttakendurna – og einhver jákvæð áhrif á alla. Ég mæli með „Leiklist til sjálfsræktar” og þakka kærlega fyrir mig.

Lilja, einstæð móðir

Ágæti lesandi, mig langar til að deila með þér minni reynslu og nokkrum staðreyndum um lífsskilyrði þeirra sem eru öryrkjar, atvinnulausir eða fá félagslega aðstoð. Ef við byrjum á því að skoða laun þessara einstaklinga erum við að tala um framfærslu frá 110.000 krónum í félagslega aðstoð og rúmlega 140.000 krónur í atvinnuleysisbætur. Ég sem einstæð móðir með tvö börn á minni framfærslu fæ um 189.000 krónur í endurhæfingalífeyrir sem er þó aðeins hærra en fyrri dæmi, en langt frá því að vera nóg til að fæða og klæða mig og strákana mína tvo. Ef við gefum okkur það að fastar afborganir á mánuði ( húsnæði, hiti og rafmagn ) séu um 80.000.krónur á mánuði, sést glöggt og greinilega að þessi framfærsla dugar skammt.

Þegar maður á hvorki fyrir mat né lækniskostnaði og öðrum nauðsynjum, og er algjörlega upp á aðra komin, fer maður að upplifa sig sem annarsflokks borgara, ég hef staðið í biðröð eftir mat í tvo klukkutíma. Aldrei bjóst ég við því að staða mín í velferðarsamfélaginu á Íslandi yrði sú að ég yrði að betla mat.  Sjálfsmyndin er brotin, maður lifir á kerfinu og stendur í biðröð eftir því að geta gefið börnunum sínum að borða.

Þegar svona er komið fyrir manni fer maður ekkert út að lyfta sér upp, skömmin sem fylgir þessum aðstæðum veldur því að fólk dregur sig inn í skel og finnst erfitt að umgangast þá sem hafa vinnu eða meira fjárráð en maður sjálfur. Sjálf var ég oft bitur út í vini mína, skildi ekki afhverju mér var úthlutað það hlutverk að vera fátæk, og geta ekki tekið þátt í samfélaginu og því sem vinirnir voru að gera .. ég hef einfaldlega ekki efni á því.  Eftir smá tíma hættir fólk að hringja og bjóða manni með, því að maður segir alltaf nei.

Staða mín er þessi, ég er gott efni í öryrkja enda bæði með líkamleg og andleg mein, ég er ómenntuð einstæð móðir og stend ekki vel félagslega. Kerfið hefur ekki reynst mér illa og ég hef þegið þau úrræði sem hafa verið í boði fyrir mig. Eftir útskrift af Hvítabandinu/dagdeild geðdeildar, fór ég að stunda Hlutverkasetrið. Í fyrsta skiptið í langann tíma hef ég tilgang og smá hlutverk í samfélaginu sem mig langar svo mikið til að leggja mitt af mörkum til.

Við sem erum fátæk og oft á tíðum þessvegna félagslega einangruð eigum Hlutverkasetrið sem samastað, þar kemur saman fólk úr öllum þjóðfélagsstéttum, fólk í atvinnuleit rétt eins og sjúklingar. Það eitt og sér gerir Hlutverkasetrið að sérstökum stað, ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á það hversu mikilvægt það er fyrir fólk í bata eða fólk sem á sér enga von um að snúa aftur á vinnumarkaðinn að umgangast heilbrigt fólk, ef svo má að orði komast. Það er að segja að vera í blönduðum hóp og vera ekki alltaf að upplifa sig sem sjúkling. 

Í Hlutverkasetrinu er í boði fjölmörg námskeið s.s. myndlist, jóga, stærðfræði, magadans, leirlist, að hlusta á líkama sinn, að sækja um vinnu, viltu efla tenglsa net þitt og svo lengi mætti telja. Þau eru eins fjölbreytt eins og þau eru mörg en það sem mestu skiptir er að þau eru okkur sem stunda setrið að kostnaðarlausu. Sjálf sæki ég eitt námskeið, en ég mæti í Hlutverkasetrið fjórum sinnum í viku. Ég fer þangað til að hitta annað fólk, komast út úr húsi og til að gera gagn. Svo er annað sem mér finnst að verði að koma fram, á miðvikudögum er alltaf boðið uppá súpu og heimsins besta brauð á litlar 100 krónur.  Ef áhugi er fyrir hendi er í boði að elda mat hina dagana, Hlutverkasetrið hefur tekið kostnaðinn á sig og ég hef aldrei borgað meira en 400 krónur fyrir vel útlátinn og girnilegann mat þar. Ég ætla að elda fyrir fólkið mitt á morgun því þar liggur eitt af áhugasviðum mínum þ.e.a.s. í eldamennsku.

Hugmyndum mínum hefur ávalt verið vel tekið þar og ég sem og aðrir hvattir til að leggja okkar að mörkum, sýna frumkvæði, og fá tækifæri til að láta ljós okkar skína. Ég get örugglega aldrei komið því í orð hversu mikið þessi staður og sú hvatning sem ég hef fegnið þar hefur gert fyrir mitt sálartetur.

Umsögn Jens Jenssonar

Hvað hefur Hlutverkasetur gert fyrir mig?

Ég verð að segja að þegar ég heyrði fyrst um Hlutverkasetur vissi ég ekki á hverju ég ætti von. Læknirinn minn hafði beðið mig að kíkja á staðinn með opnum huga og með miklum semingi samþykkti ég að skoða staðinn. Ég bjóst ekki við að ég mundi finna þar eitthvað fyrir mig því ég hafði farið á netið og ekki litist á nein þeirra úrræða sem ég hafði skoðað.

Ég mætti á föstudegi eftir hádegi, töluvert stressaður. Ég vissi ekki hvort læknirinn minn hefði haft samband og hvað þeim hefði farið á milli. Stressið var það mikið að það lá við að ég mætti ekki á staðinn en ég lét mig hafa það og mætti þarna um klukkan eitt á föstudegi og þar tóku þær Kristín, Helga og Ebba á móti mér. Kristín sýndi mér staðinn og útskýrði hvaða námskeið væru í gangi og við skoðuðum töfluna þar sem námskeiðin voru auglýst. Í framhaldi af því var útskýrt hvað væri ætlast til af mér. Ég gæti mætt á þeim tíma sem ég vildi og það væri ekki gerð nein krafa um að ég gerði eitthvað ákveðið, það væri allgjörlega undir mér komið hvað ég vildi gera innan Hlutverkasetursins og hvað ég notaði mikið af úrræðum Hlutverkaseturs.

Það að gera ekki neinar kröfur til mín um að vera í einhverju námskeiði eða að gera eitthvað ákveðið hentaði mér mjög vel því ég var ekki tilbúinn, á þeim tíma, til að standa undir einhverjum kröfum um að gera eitthvað sérstak, annars fengi ég enga þjónustu, samber á sumum stöðum þarf maður að sanna sig fyrst til að fá þjónustu og ef þú sannar þig ekki á réttan hátt þá fær maður ekki neina þjónustu og þá er maður útilokaður frá þeirri þjónustu sem maður er að biðja um.

Þetta frjálsræði sem er í Hlutverkasetri virkaði rosalega vel fyrir mig og þegar að var tilbúinn að gera eitthvað þá fékk ég frábæran stuðning frá þeim öllum, hver á sinn hátt. Ég vildi fara að skrifa sögu sem er búin að þvælast í hausnum á mér í ein þrjátíu ár og Ebba sagði mér að setjast við tölvuna og fara að skrifa, að það mundi eitthvað koma út úr því, bara skrifa þegar ég treyst mér til og svo þegar að ég vildi gera eitthvað annað þá mundu þær hjálpa mér með þann stuðning sem ég þyrfti.

Það sem mér hefur fundist best við Hlutverkasetur er að þegar einhver er tilbúinn að gera eitthvað sér til gagns, þá fær sá einstaklingur þá hvatningu og þann stuðning sem hann þarf til að gera það að veruleika, án þess að vera með of mikinn þrýsting. Fljótlega fór ég að fara á hin ýmsu námskeið og hef haft mjög gaman af þeim og svo er líka gott stundum að gera ekki neitt og bara setjast niður og tala um þau mál sem eru efst á baugi á hverjum tíma. Mér virðist það vera sérstaða Hlutverkaseturs að þar kemur fólk á sínum forsendum og það getur komið á þeim tíma sem það vill. Það að fá þann stuðning og þá hvatningu sem það þarf á þeim tíma þegar fólk vill, það virðist virka best.

Ef ég á að segja hvað sé það mikilvægasa sem Hlutverkasetur hefur gert fyrir mig, þá er það sjálftraustið sem hefur aukist töluvert. Ég er orðinn öruggari með mannleg samskipti á þeim tíma sem ég hef verðið í Hlutverkasetri. Ég hef séð marga koma hér í Hlutverkasetur niðurbrotna, en svo eftir smátíma hefur maður séð sjálftraustið aukast hægt og rólega og það er alveg mjög mismunandi hvað fólk þarf að mæta mikið til að maður sjái áberandi mun. Ég get haldið svona áfram en ég læt þetta duga að sinni. Þetta er mín saga varðandi Hlutverkasetur. Kveðja Jens Jensson

Hópumsögn þeirra sem stunduðu starfsendurhæfingu

Við sem höfum stundað Hlutverkasetur settumst niður og ákváðum að setja á blað, af hverju við stunduðum Hlutverkasetur. Eitt er að vita og finna innra með sér hver ástæðan er og annað að koma henni á blað svo vel sé. Hér skal reynt, af bestu getu, að gera grein fyrir tilfinningum okkar.

1.Af hverju stunda ég Hlutverkasetur?
Þjóðfélagsþegnum verður það æ betur ljóst hversu einmanalegt og niðurdrepandi það er fyrir fólk  að vera aleitt heima vikum og mánuðum saman. Þeir sem hafa barist við þunglyndi og kvíða  hafa reynslu af slíkri upplifun og vita hvað þessi tími getur verið ömurlega erfiður. Hinir sem hafa misst vinnu og/eða dottið út úr skóla vegna veikinda eiga ekki síður erfiða tíma og oftast fer það svo að viðkomandi liggur út af, meiri huta dagsins, og ekkert verður úr verki. Þegar fólk er komið í þá aðstöðu að fara aldrei út að hreyfa sig, hittir mjög sjaldan eða aldrei annað fólk og hefur enga eirð til að lesa eða stunda nám þá er voðinn vís, nema eitthvað sérstakt gerist í þjóðfélaginu til að bjarga málum.  Við teljum okkur hafa verið svo heppin að finna þetta „sérstaka.”

Hlutverkasetur hvetur okkur til að fara á fætur að morgni og við lítum á það sem okkar vinnustað á meðan við erum að ná upp nægilegri orku til að drífa okkur aftur út. Í raun verður því ekki með orðum lýst hversu mikilvægt það er að hafa stað eins og Hlutverkasetur, þar sem alltaf bíða manns verkefni og góðir vinnufélagar og leiðbeinendur.

2.Hvert er markmiðið með veru okkar hér?
Fyrst og síðast er markmiðið að ná fyrri virkni, orku og heilsu. Jafnframt vitum við öll, af eigin reynslu, að það er mikið áfall, þegar maður áttar sig á því, einn góðan veðurdag, að fyrri orka er horfin og við fyllumst vonleysi, því enginn veit í raun hvenær hún kemur aftur. Hér hvetjum við hvort annað og starfsfólkið heldur með okkur fundi og hvetur okkur áfram.

Ekki má gleyma að hér vinna starfsmenn, í fullu samráði við okkur, að því að byggja upp námskeið, sem verða okkur  til framdráttar, þegar við förum aftur að sækja um vinnu og/eða skóla. Má þar nefna námskeið í: myndlist, vélritun, powerpoint.  Powerpointnámskeiðið er einnig hugsað til að við æfumst í að koma fram og ræða við lítinn hóp, svara fyrirspurnum og reyna að sigrast á þeim kvíða, sem fylgir því að standa upp og tala.
Einnig hefur verið boðið upp á námskeið í sjálfstyrkingu, leikist, samskiptum, meðvirkni og venjumótun.

3.Hvar værum við ef ekkert Hlutverkasetur væri til?
Vissulega eru til fleiri staðir, sem vinna að velferð þeirra, sem glíma við sálfélagsleg vandamál. Kannski væru einhver okkar þar, en enginn vafi er heldur á því að sum okkar væru á geðdeild og önnur væru heima og hreyfðu sig jafnvel ekki úr húsi. Það er því ljóst að Hlutverkasetur hefur verið ómetanlegt fyrir okkur.