Valdefling snýst um að breyta sjálfskilningi t.d. þeirra sem þurfa á einhvers konar aðstoð að halda, að þeir sjái sig sem einstaklinga sem hafi rétt til að bregðast við þjónustuveitendum, skipulagi og stjórnun þjónustunnar, aðstoðinni sem þeir fá og því lífi sem þeir kjósa að lifa. Valdefling er huglæg tilfinning, sem í gegnum tengsl, ýtir undir sjálfsákvörðunarrétt, sjálfsvirðingu og sjálfsmat og hefur áhrif á félagsstöðu. Hugtakið valdefling tengist því lífsgæðum og mannréttindum. Valdefling getur byrjað í; grasrótarstarfi, út frá stefnumótun stjórnvalda eða þjónustukerfa, eða verið sem hluti af félagslegri íhlutun.

Sextán málþing hafa verið haldin frá 2007 þar sem erindi, fræðsluefni og vinnusmiðjur hafa verið haldnar í tengslum við hugmyndafræði valdeflingar, niðurstöður notendarannsókna, bæði innlendum og erlendum, og réttindamálum geðfatlaðra. Sveitarstjórar hafa verið fundarstjórar og fulltrúar frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu hafa verið með innlegg um stefnumótun í málaflokknum. Vinnusmiðjur hafa verið haldnar til að fundargestir fengu tækifæri á að tjá sig nánar og yfirfæra nýja þekkingu á eigin vinnustað eða umhverfi. Ræðumenn, auk starfsfólks Hlutverkaseturs, hafa komið frá atvinnulífinu, sveitarstjórn, endurhæfingarúrræðum, löggæslu,  félags- og heilbrigðisþjónustunni, frá aðstandendum og ekki síst notendum sjálfum. Málþing hafa verið haldin á Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum, Höfn, Sauðárkróki, Húsavík, Suðurnesjum, Hafnafirði, Neskaupsstað, í Vestmannaeyjum, á Selfossi í Borgarnesi og á Grundartanga. Rauði kross Íslands gerðist samstarfsaðili í tengslum við átak þeirra ”Byggjum betra samfélag og Háskólinn á Akureyri hefur einnig komið að sem samstarfaðili.