Rannsóknaraðferð

Notandi spyr notanda (NsN) er rannsóknaraðferð sem hefur verið þróuð af einstaklingum með reynslu af geðheilbrigðiskerfinu. Að hafa reynslu af því að greinast með geðsjúkdóm og hafa verið í hlutverki sjúklings eða notanda geðheilbrigðis- eða velferðarkerfisins er reynsla sem fáir heilbrigðisstarfsmenn og rannsóknarfólk hafa.

Verkefni NsN

Frá 2006 – 2012 hafa NsN starfsmenn Hlutverkaseturs rætt við íbúa sem búið hafa í 14 mismunandi búsetuúrræðum. Átta  á vegum svæðisskrifstofu fatlaðra og sex á vegum Reykjavíkurborgar. Einnig hafa verið tekin viðtöl við um 55 einstaklinga sem nýtt hafa dagúrræði víða um land. Meginmarkmið verkefnisins er að kanna stöðu, ímynd, upplifun og reynslu einstaklinga með geðraskanir. Fá sýn notenda á þjónustuna; hvað þeir kunna að meta, hvað þeim er mikilvægt eða hvað þeim finnst mega betur fara. Í NsN er það fyrst og fremst starfsfólk með notendareynslu sem aflar gagnanna, greinir gögnin og setur saman í skýrslu.

Verkefnið hefur m.a. skapað þekkingu sem hefur verið nýtt á starfs- og fræðsludögum á viðkomandi starfsstöðum og á málþingum um allt land. Að lokinni hverri úttek voru gerðar skýrslur sem sendar voru ráðuneytinu, starfsstöðvum og Reykjavíkurborg. Þá voru haldnir starfsdagar á viðkomandi íbúðakjörnum þar sem niðurstöður skýrslnanna voru kynntar og starfsmenn Hlutverkaseturs deildu reynslu sinni af þátttökunni í verkefninu.  Í framhaldi voru sett framtíðarmarkmið meðal annars að virkja íbúa betur í nærumhverfinu s.s. við daglegar athafnir til að auka sjálfstæði og sjálfræði. Á sumum stöðum þurfti að draga úr stjórnsemi og forræðishyggju starfsfólks og sum búsetuúrræðin voru rekin meira eins og stofnanir frekar en heimili.

Þeir íbúar sem nutu stuðnings frá sjálfboðaliðum Rauðakross Íslands voru afar ánægðir með þá tengingu og óskuðu eftir framhaldi á því.  Eins komu fram hugmyndir að fá námskeið þar sem þátttaka væri á jafningjagrunni. Tillögur til nýsköpunar kom helst fram í því að ráða starfsfólk með notendareynslu til starfa í íbúðakjörnunum. Þannig starfsmenn gætu betur sett sig í spor íbúa, væru fyrirmyndir og myndu hvetja íbúa til að takast á við áskoranir sem tengdust aukinni samfélagsþátttöku.

Fyrirmynd NsN

Fyrirmyndin af NsN verkefninu er fengin frá Þrændalögum í Noregi, þar sem gæðaþróun var framkvæmd af notendum geðheilbrigðisþjónustunnar í fyrsta sinn árið 1998. Í Þrændalögum hefur verkefnið opnað augu manna fyrir mikilvægi notendaáhrifa innan geðheilbrigðisþjónustunnar. Auk þess sem sýnt hefur verið fram á að einstaklingar með geðraskanir geta unnið að og framkvæmt viðamiklar gæðakannanir og rannsóknir. NsN aðferðin hefur náð aukinni útbreiðslu í Noregi.

NsN á Íslandi

Undanfarin ár hafa orðið miklar framfarir á sviði gæðaþróunar í félags- og heilbrigðisþjónustu. Sú þróun byggist á viðleitni allra sem hlut eiga að máli til að bæta árangur, vinnubrögð og hagkvæmni til að koma til móts við óskir, þarfir og væntingar þeirra sem nota þjónustuna. Ýmsar leiðir eru notaðar til að meta faglegan árangur og mikilvægt er að þær séu fastur liður í rekstri þjónustunnar, því vaxandi kröfur eru gerðar um fjárhagslegan ávinning, jafnrétti og lífsgæði. NsN aðferðin var fyrst framkvæmd á Íslandi árið 2004 á þremur geðdeildum Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH). Verkefnið byrjaði sem samstarfsverkefni háskólasamfélags og heilsugæslu Reykjavíkur og var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna með mótframlagi frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Iðjuþjálfanemar við Háskólann á Akureyri útfærðu verkefnið í samstarfi við notendur. Verkefnið, sem unnið var árið 2004, tókst vel og var tilnefnt sem eitt af fjórum verkefnum Nýsköpunarsjóðs til Forsetaverðlauna. Hér er hægt að nálgast skýrslur NsN hópsins á heimasíðunni.

Geðheilbrigðissáttmálin

Árið 2005 undirrituðu Evrópuþjóðir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) yfirlýsingu um geðheilbrigðismál, svo kölluð „Helsinki skjöl“. Þar sem fram kemur að móta verði, innleiða og meta stefnu og löggjöf sem leiði til aðgerða og feli í sér að auka velferð þjóða, draga úr geðrænum vandamálum og leggja áherslu á að fólk með geðraskanir séu virkir þátttakendur í samfélaginu.

Ávinningur NsN

Með verkefninu gefst tækifæri til að móta þjónustuna út frá þörfum og vilja þeirra sem hana nýta og auka þannig gæði og skilvirkni. Sjónarmið notenda á gæðum þjónustunnar er hægt að nýta til að opna umræðuna enn meir um þjónustuform einstaklinga með geðraskanir og aðlaga hana að þeirra þörfum og vilja. Með því að skapa velmetin störf fyrir einstaklinga með geðraskanir, til að móta og hafa áhrif á félagsþjónustu, er verið að efla mann- og félagsauð. Mannauður byggir á menntun og þjálfun einstaklinga. Félagsauður eru þau verðmæti og áhrif sem skapast í tengslum á milli manna. Ávinningur verkefnisins er einnig fjárhagslegur fyrir samfélagið. Um 20 einstaklingar hafa fengið vinnu í NsN verkefninu sem hefur leitt til frekari náms eða vinnu á almennum markaði. Starfsfólk NsN nefndi nokkra þætti sem höfðu haft jákvæð áhrif s.s; aukið sjálfstraust, úthald og vilja. Þátttaka í verkefninu gaf þeim von og tækifæri til að efla styrkleika sína og huga að frekari landvinningum á almennum vinnumarkaði.