Umsögn vegna starfsdags fyrir starfsfólk búsetukjarna fyrir geðfatlaða.
Leiðbeinandi og fyrirlesari: Elín Ebba Ásmundsdóttir, iðjuþjálfi.

Undirrituð fékk Elínu Ebbu Ásmundsdóttir til að sjá um fræðslu á starfsdegi fyrir starfsmenn búsetukjarna fyrir geðfatlaða. Dagurinn var í alla staði hinn ánægjulegasti. Elín Ebba hóf daginn með hópefli, sem fól í sér hina ýmsu leiki þar sem starfsmenn nálguðust hvor annan á nýjan hátt. Þetta gerði það að verkum að andrúmsloftið varð afslappað og þægilegt. Að því loknu hélt hún fyrirlestur um valdeflingu, en það er sú hugmyndafræði sem starfsmenn búsetukjarnanna vinna eftir. Í þeirri umræðu velti hún upp ýmsum hliðum hugmyndafræðinnar sem gerði það að verkum að við sem á fyrirlestrinum vorum fengum aukna þekkingu og víðari sýn á starfið okkar. Einnig tengdi hún hugmyndafræðina við fordóma, áhrif lyfja á notendur og lausnir. Að endingu stýrði hún verkefnavinnu sem byggðist á samtölum starfsmanna, sem síðan var unnið úr í hópastarfi þar sem hóparnir unnu úr sínum hugmyndum. Þessi vinna heldur svo áfram í starfi okkar og verður notuð til þess að auka gæði starfs okkar ásamt því að nýtast í stefnumótun fyrir búsetukjarnana.
Elín Ebba var með okkur allan tímann frá kl. 13-17, sem nýttist mjög vel og skilaði heildrænni niðurstöðu sem er gott veganesti fyrir áframahaldandi starf. Að mati okkar allra þá nýttist dagurinn vel. Við fengum staðfestingu á því að við erum á réttri leið, ásamt því að gefa okkur hugmyndir að áframhaldandi vinnu með geðfötluðum, auknum áhuga og aukinni innsýn í heim geðfatlaðra.
Elín Ebba hefur þann áhuga og kraft sem þarf til að halda athygli starfsmanna. Hún er lifandi og skemmtilegur fyrirlesari með mikla þekkingu og reynslu sem gerir það að verkum að löngun til að gera betur kviknar auðveldlega.

Forstöðumaður búsetuþjónustu fyrir geðfatlaða