Hugmyndin að Geðræktarkassanum
Saga hvunndagshetju

Geðrækt var markaðssett á meðal landsmanna þann 10. október árið 2000 á sama hátt og líkamsræktin var markaðssett á sínum tíma. Geðrækt var samstarfsverkefni Geðhjálpar, Landlæknisembættisins og geðsviðs Landspítala Háskólasjúkrahúss. Verkefnið var forvarnar- og fræðsluverkefni og var Geðræktarkassinn meðal þeirra verkefna sem unnin voru á fyrsta ári. Hugmyndin að kassanum fékk Elín Ebba Ásmundsdóttir þegar hún heyrði sögu 10 barna móður sem bjó á Akranesi upp úr aldamótunum 1900.
Árið 1900 fluttu ung hjón, Ásmundur Þorláksson og Kristbjörg Þórðardóttir, á bæinn Fellsaxlarkot í Skilmannahreppi. Þetta var lítið kotbýli sem stóð niður við fjöruborð Grunnafjarðar. Hjónin áttu þá fimm börn og von var á því sjötta. Bústofninn var tvær kýr og nokkrir tugir kinda, auk nokkurra hrossa. Einnig var veruleg búbót að rauðmaga og grásleppu sem rak á land framan við bæinn. Vinnudagur þeirra hjóna var langur, eins og títt var á þeim tímum og fátæktin mikil. Kristbjörg sá um heimilishaldið og sinnti börnunum sem stöðugt fjölgaði. Árið 1907 fæddist þeim hjónum ellefta barnið, sem öll lifðu, en eitt barn hafði fæðst andvana. Það var mikill harmur, þetta sama ár, þegar Ásmundur veiktist skyndilega og varð óvinnufær og var hann að mestu rúmfastur þar til hann lést í apríl árið 1909, aðeins 38 ára gamall. Nú stóð Kristbjörg ein eftir með 10 börn, það elsta 14 ára og hið yngsta tveggja ára. Daginn eftir jarðarförina mættu þrír hreppsnefndarmenn og tilkynntu Kristbjörgu að þeir gerðu kröfu í búið og allar eigur þess yrðu seldar á uppboði. Það var skelfilegur dagur þegar Kristbjörg stóð með barnahópinn sinn á hlaðinu og horfði á fátæklegar eigur sínar boðnar upp og átti hún erfitt með að leyna hryggð sinni. Það var þó enn átakanlegra þegar hreppsnefndin leysti upp heimilið og ráðstafaði börnunum. Þrjú þau elstu fengu vist á nálægum bæjum en yngri börnin voru boðin upp eins og aðrar eigur Kristbjargar með öfugum formerkjum þó, því sá sem bauð lægst hlaut hnossið. Einn hreppsnefndarmannanna kvaðst sjálfur myndi taka Kristbjörgu til sín og mætti hún hafa tvo börn með sér. Kristbjörg þvertók fyrir þetta boð og varð henni ekki haggað. Hún hélt út á Akranes og leitaði til vina sinna sem buðu henni að dvelja hjá sér
Sorg barnanna vegna föðurmissinn var sannarlega mikil og en sárara að þurfa að skiljast við móður sína og hvert annað þegar þau tvístruðust milli bóndabæja. Kristbjörg átti erfitt með að sjá af börnunum sínum og var hrædd um þau. Henni hafði því hugkvæmst að útbúa lítið skrín handa hverju þeirra. Í það setti hún hluti sem voru þeim kærir og efnisbút úr flík sem hún notaði mikið sjálf. Þegar hún kvaddi þau hvert af öðru, í túnfætinum, sagði hún eitthvað á þessa leið: „Í hvert skipti sem ykkur líður illa og saknið okkar hinna skulið þið fara út undir fjósvegg eða eitthvert sem þið getið verið ein og ótrufluð. Þar takið þið hlutina upp úr skríninu til að minna ykkur á góðu stundirnar sem við áttum þegar við vorum öll saman. Efnisbúturinn úr (skyrtunni) geymir lyktina af mér, ef þið eigið erfitt með að kalla fram andlit mitt. Skrínið á að minna ykkur á að ég mun koma aftur og sækja ykkur.“ Það liðu mörg ár áður en fjölskyldan sameinaðist á ný, en það tókst. Öll systkinin urðu dugnaðarforkar, héldu góðum tengslum hvert við annað á fullorðinsárum, lifðu við góða heilsu og urðu háöldruð. Heimild: (Æðrulaus mættu þau örlögum sínum. Bragi Þórðarson, Hörpuútgáfan, Akranesi 1996).
Elín Ebba Ásmundsdóttir tengdist þessari fjölskyldu í gegnum föður sinn. Yngsta dóttir Kristbjargar var vinnukona í Borgarfirðinum. Með henni vann ung kona sem hafði orðið ófrísk eftir annan mann meðan eiginmaður hennar lá á dánarbeði. Konan var í öngum sínum því hún gat ekki alið barnið upp. Dóttir Kristbjargar sagði móður sinni frá þessu. Kristbjörg fann til með konunni og bauðst til að taka barnið að sér sem hún og gerði. Þetta barn var faðir Elínar Ebbu. Hann eignaðist síðan fjóra albræður en kynnist þeim ekki fyrr en hann varð orðin pabbi sjálfur. Kristbjörg og börn hennar 10 tóku meir og minna að sér uppeldið á drengnum. Hann ólst upp í mikilli ást og umhyggju og varð hrókur alls fangaðar sama hvert hann kom. Elín Ebba fékk að heyra sögur systkinanna af skrínunum, þegar hún var barn og skynjaði hve dýrmæt þau hefðu verið í þeirra augum. Skrínin með fáeinum hlutum hafði hjálpað þeim halda í vonina og trúna á að þau myndu sameinast á ný. Eins sýnir þessi saga mikilvægi þess að halda sér virkum þegar á móti blæs.
Frásagnirnar urðu síðan innblástur til að útfæra hugmyndina að Geðræktarkassanum. Þeir sem eru undir miklu álagi dvelja oft í neikvæðum hugsunum og eiga erfitt með að kalla fram jákvæðar hugsanir og þar getur Geðræktarkassinn komið að góðum notum. Í kassann má safna hlutum sem kalla fram góðar minningar og geta hjálpað við að missa ekki vonina. Gott er að nýta hann á markvissan hátt og grípa til þegar neikvæðar hugsanir fara að gera vart við sig. Geðræktarkassinn á því að vera jafn sjálfsagður hlutur og sjúkrakassinn á hverju heimili. Innihald kassans er afar einstaklingsbundið og því ekki hægt að kaupa hann tilbúinn með ákveðinni uppskrift. Með því að fara í kassann og draga upp hluti sem við höfum sett í hann og vitum af reynslunni að hefur jákvæð áhrif á hugsun getum við beint huganum í jákvæðari farveg. Geðræktarkassinn notast líkt og sjúkrakassinn við minni háttar áföllum, s.s. eftir rifrildi, eða skammir þegar okkur leiðist, erum einmana eða vantar stuðning. Hugann er hægt að þjálfa eins og líkamann, það tekur tíma og því æfðari sem við verðum að ná tökum á eigin hugsunum því meiri árangri náum við. Því er upplagt að byrja að aðstoða ungviðið við að útbúa sinn eigin geðræktarkassa. Til að gefa hugmyndir um hvað slíkur kassi getur innhaldið er t.d. góð bók, diskur með tónlist sem hefur jákvæð áhrif, myndbandsspóla sem fær okkur til að hlæja, símanúmer hjá vini eða ættingja sem gott er að tala við, ljóð, myndir sem vekja upp jákvæðar minningar, blað, blýantur eða pensill til að skrifa eða mála okkur frá neikvæðum hugsunum o.s.fr.