Hafðu samband
Hlutverkasetur býður upp á geðræktarnámskeið og/eða fræðslu fyrir einstaklinga, stjórnendur, fyrirtæki, skóla og almenning. Tímalengd og innihald námskeiða/fyrirlestra eru sniðin að þörfum hvers og eins.
Aðalfyrirlesarar eru Héðinn Unnsteinsson, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu og Elín Ebba Ásmundsdóttir, iðjuþjálfi/dósent við HA og framkvæmdastýra Hlutverkaseturs.

Nánari upplýsingar gefur Elín Ebba Ásmundsdóttir í gegnum netpóst, ebba@hlutverkasetur.is

Upphaf geðræktarinnar
Geðrækt var markaðssett á meðal landsmanna þann 10. okt árið 2000 á sama hátt og líkamsræktin var markaðssett á sínum tíma. Verkefnið er forvarnar- og fræðsluverkefni. Frumkvöðullinn af geðræktinni var eldhuginn, Héðinn Unnsteinsson, en aðalstarf hans nú er sérfræðingur í forsætisráðuneytinu. Héðni tókst á sínum tíma að ná saman einstaklingum, hvaðanæva úr samfélaginu, í lið með sér til að koma geðræktinni á koppinn. Hann var heppinn með tímasetningu því mikilvægi geðheilbrigðis á hagvöxt og hagsæld þjóða var orðin þekkt staðreynd. Geðrækt var samstarfsverkefni Geðhjálpar, Landlæknisembættisins og geðsviðs Landspítala Háskólasjúkrahúss. Lýðheilsustöð Íslands tók síðan við geðræktinni árið 2004. Markmið verkefnisins var og er að bæta líf allra landsmanna með vitundarvakningu, fræðslu og námskeiðum um geðheilbrigði og mikilvægi þess. Geðrækt einblínir á það sem er heilt  og útgangspunkturinn er það sem fólk á sameiginlegt. Gott geð, sjálfsvirðing, sjálfstraust, trú á eigin áhrifamátt og jákvæð hugsun eru eftirsóknarverðir eiginleikar sem flestir vilja tileinka sér. Sérfræðiþekking og framfarir í heilbrigðismálum firra ekki fólk því að taka ábyrgð á eigin heilsu. Mikilvægi reglulegrar hreyfingar, rétts mataræðis, reglulegs svefns og streitustjórnunar fyrir heilsuna er vel þekkt. Geðræktin snýst hins vegar um hugann. Væntingar, tilfinningar og hugsanir hafa áhrif á heilbrigði. Vellíðan er sú tilfinning sem manneskjan finnur fyrir þegar hún hugsar jákvætt um sjálfan sig og aðra. Rannsóknir renna sífellt styrkari stoðum undir það að hugsun hefur áhrif á líðan og heilsufar. Heilinn er alveg ótrúlegt líffæri. Hugsanir og tilfinningar ráða því hvers konar samskipti heilinn á við líkamann. Heilinn á í stöðugum ”samræðum” við líkamann með hormónum sem ferðast með blóðrásinni. Heilinn getur sent skilaboð sem ýmist hafa slæm eða góð áhrif á heilsuna.
Þjóðir Evrópu hafa áttað sig á því að geðraskanir og afleiðingar þeirra kosta þær u.þ.b. 3-4% af vergri þjóðarframleiðslu. Geðraskanir kosta Íslendinga a.m.k. 20 milljarða á hverju ári í beinum og óbeinum kostnaði. Umhverfis- og persónuþættir hafa áhrif á geðheilsu manna, og hægt er að hafa stjórn á mörgum þáttum. Fræðsla um geðrækt gefur almenningi verkfæri í hendur til að efla bæði eigið geðheilbrigði og annarra. Gott sjálfstraust, streitustjórnun, aðlögunarhæfni, góður aðbúnaður, jafnrétti, jafnræði, uppbyggileg samskipti og fordómaleysi eru þættir sem hægt er að vinna með.

Geðoðin 10
Geðorðin 10 og geðræktarkassinn spruttu út frá geðræktinni og hafa staðist tímans tönn. Geðorðin tíu byggja á rannsóknum sem tengjast hamingju, vellíðan og velgengni, sjá nánar undir “greinar”.  GEÐORÐIN tíu eru eftirfarandi: 1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara 2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um 3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir 4. Lærðu af mistökum þínum 5. Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina 6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu 7. Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig 8. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup 9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína 10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast.

Geðræktarkassinn
Geðræktarkassinn á að vera jafn sjálfsagður á hverju heimili og sjúkrakassinn sjá nánar um tilurð hans og forsögu undir “greinar”. Innihald kassans er afar einstaklingsbundið og því ekki hægt að kaupa hann tilbúinn. Geðræktarkassann á að leita í þegar neikvæðar hugsanir skjóta upp kollinum. Með því að fara í kassann og draga upp hluti sem við vitum, af reynslunni, að hafa jákvæð áhrif á hugsun, getum við stýrt hugarfari okkar í jákvæðari farveg. Geðræktarkassinn notast líkt og sjúkrakassinn, við minniháttar áföllum t.d. eftir erfiðan vinnudag, rifrildi eða skammir. Hann má líka nota ef við erum undir miklu álagi, okkur leiðist, erum einmana og vantar stuðning.  Hugann er hægt að þjálfa eins og líkamann. Það tekur tíma og því æfðari sem við verðum í að ná tökum á eigin hugsunum þeim mun meiri árangri náum við. Því er upplagt að byrja á því að aðstoða ungviðið við að útbúa sinn eigin geðræktarkassa. Ræða það sem hefur áhrif á hugsun, viðbrögð við neikvæðum hugsunum og hvað við getum gert til að hafa jákvæð áhrif á hugsun. Það sama á við um geðræktina og líkamsræktina, það er aldrei of seint að byrja.
Til þess að gefa hugmynd um hvað slíkur kassi gæti innihaldið , má t.d. nefna góða bók, disk með tónlist sem hefur jákvæð áhrif, myndbandsspólu sem fær okkur til að hlæja, símanúmer hjá vini eða ættingja sem gott er að tala við, ljóð, myndir sem vekja upp jákvæðar minningar og blað og blýant til að skrifa okkur frá neikvæðum hugsunum.
Geðræktarkassanum verðum við að taka ábyrgð á, útbúa sjálf og setja hluti í. Geðræktin á í harðri samkeppni við þaulhugsaða sölumennsku í alls konar útgáfum, þar sem sérfræðingar í þeim geira vinna markvisst að því að villa um fyrir heila okkar. Því yngri sem við erum þeim mun móttækilegri erum við fyrir slíkum skilaboðum.

Hér er linkur á fyrirlestra Elínar Ebbu Ásmundsdóttir um geðræktarkassann og geðorðin 10:

http://www.fyrirlestrar.is/folkid/elin-ebba-asmundsdottir

http://www.youtube.com/watch?v=1xEisZae1q0