Andri Vilbergsson

Andri er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Honum líður best á mölinni í strigaskóm sparkandi í fótbolta. Fyrir ca. 11 árum gerðist hann fótboltaþjálfari og hefur þjálfað bæði stelpur og stráka á öllum aldri síðan. Hann er Þróttari í húð og hár og ef hann svíkur lit þá gerist hann Liverpoolari. Þegar hann þurfti að taka ákvörðun um hvað hann vildi verða þegar hann yrði stór datt hann niður á fræðigrein sem aðeins var kennd við Háskólann á Akureyri – iðjuþjálfun. Hann flutti því norður og lauk B.s nám í þeim fræðum 2013. Hann starfaði í framhaldinu á geðsviði LSH. Í dag vinnur hann einnig í hlutastarfi í Hlutverkasetri. Í starfi sínu leggur hann áherslu á gildi hreyfingar, útiveru og atvinnuþátttöku. Ásamt því að vera pabbi og sinna því hlutverki af alúð leggur hann einnig rækt við gamla félaga sína. Andri hjólar í vinnuna, er hlýr og nærgætinn í samskiptum. Uppáhaldsmaturinn hans er lambalæri með velútilátinni sósu.

 

anna-fix-og-brighten

Anna Henriksdóttir

Anna er myndlistarmaður.  Undanfarin áratug hefur hún unnið við tölvuteiknun hjá arkitektum. Anna missti vinnu sína í kjölfar efnahagshrunsins og vann sem sjálfboðaliði í rúmt ár í Hlutverkasetri. Í dag sér Anna um listkennslu og er tengiliður hópstjóra sem sinna skapandi verkefnum eins og listasmiðju, leirmótun og teikninámskeiðum. Anna hefur lokið M.Art.Ed í LHÍ (sem er meistaranám í listkennslu). Hún stjórnar útivist,  er liðtæk í magadansi og alls kyns uppákomum. Anna er áhugasöm, hvetjandi og ekkert verk er henni óviðkomandi. Hún hefur einstakt lag á að gera góð verk betri og uppgötva leynda listræna hæfileika nemenda sinna.

Vefpóstur Önnu er: anna(hjá)hlutverkasetur.is


 

Bergþór á vefBergþór G. Böðvarsson

Bergþór vinnur við NsN verkefnið og er fyrsti og eini notendafulltrúinn og talsmaður sjúklinga sem vinnur á geðsviði Landspítala Háskólasjúkrahúss og hefur mótað það starf frá 2006. Hann var einn af frumkvöðlum Hugarafls og lagði samtökum lið á fyrstu árum þess. Hann tók þátt í NsN verkefninu 2004 sem meðlimur Hugarafls og lagði verkefninu aftur krafta sína í Hlutverkasetri 2010. Bergþór lærði húsasmíði og kláraði verklegan samning en varð að hætta námi sökum veikinda og fór ungur á örorku. Hann hefur verið fyrirmynd margra með því að stíga fram, deila reynslu sinni og vera virkir þátttakandi í geðheilbrigðisumræðunni. Hann hefur skrifað fjöldann allan af greinum í Morgunblaðið um málaflokkinn. Hann var með í að móta fyrstu hugmyndirnar um Hlutverkasetur og tekur nú fullan þátt í að þróa starfsemina áfram. Hann þekkir vel geðheilsuúrræðin á Stór-Reykjavíkursvæðinu og mætir á reglulega fundi sem þessir staðir halda. Bergþór hefur reynslu af því að missa tökin og trúna á lífið, en jafnframt að öðlast tilgang á ný með því að taka þátt og vera virkur. Hann hefur einnig reynslu sem aðstandandi ástvinar sem þjáist af geðröskun. Bergþór er hafsjór af þekkingu og reynslu og miðlar gjarnan til þeirra sem vilja kynna sér hin ýmsu úrræði eða bara að forvitnast um lífið og tilveruna.

Vefpóstur Bergþór er: bergthor@hlutverkasetur.is

 

Edna Lupita

Edna er fædd og uppalin í Mexíkó. Hún tilheyrir stórri, samheldinni fjölskyldu og er fæddur dansari. Tónlist og dans er líf hennar og yndi, en þar sem henni gekk illa í hefðbundnum bóknámsgreinum fékk hún ekki að stunda nám í því sem hún hafði ástríðu fyrir. Edna lét ekki deigan síga og hóf dansnám í háskóla í Mexíkóborg án vitundar fjölskyldunnar. Í náminu kynntist hún lífsförunaut sínum sem var að sjálfsögðu íslenskur. Hún fylgdi honum til klakans fyrir aldamótin og fjölgaði íslendingum. Edna er opin, félagslynd og er virk í félagsmálun. Árið 2011 útskrifaðist hún með þrjár háskólagráður. B.A. í spænsku frá HÍ og lauk diplómanámi í listkennslu við LHÍ. Þriðju gráðuna fékk hún frá geðdeild LSH. Reynslu í að missa móðinn, gefast upp og þurfa að treysta á að geta tekið við stuðningi frá íslensku geðheilbrigðiskerfi. Sama ár kom hún í fyrsta sinn í Hlutverkasetur og þaðan fékk hún framhaldsgáðu í að þiggja án þess að þurfa að gefa eitthvað í staðinn. Í dag er Edna orðin starfsmaður í Hlutverkasetri og tengiliður við Batamiðstöðina á Kleppi þar sem hún kennir dans og leiklist. Edna er hvers manns hugljúfi, sýnir öllum áhuga og fær fólk til að gera ótrúlegustu hluti í nafni leik- og danslistar. Hún er vinsæl, vel liðin og dreifir einstökum suðuramerískum töfrum á samferðamenn sína.

 

ebba

Elín Ebba Ásmundsdóttir

Elín Ebba er framkvæmdastjóri, iðjuþjálfi og dósent. Í tæpa þrjá áratugi veitti hún iðjuþjálfunardeildum geðsviðs Landspítala Háskólasjúkrahúss forstöðu. Frá því 1999 hefur hún einnig starfað við heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri. Árið 1988 lauk hún sérhæfðu handleiðslunámi fyrir fagfólk, 1998 meistaraprófi í iðjuþjálfun við Florida International University, Miami og 2009 diplóma í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. Elín Ebba hefur tekið þátt í fjölmörgum samstarfsverkefnum og hafa mörg þeirra vakið sérstaka athygli og leitt til viðurkenninga. Hún hefur beint orku sinni í að breyta viðhorfum almennings til einstaklinga með geðraskanir og baris fyrir fjölþættari valkostum í meðferðarnálgunum. Elín Ebba hefur haldið fjöldann allan af erindum, námskeiðum og komið fram í fjölmiðlum í tengslum við málaflokkinn ásamt því að skrifa greinar um geðheilbrigðismál. Elín Ebba er hress, viðræðugóð, fordómalaus, opin og er þekkt fyrir sérstæðan skrautlegan fatasmekk. Áhugamál hennar eru geðheilbrigðismál og bætt líðan almennings og hún getur talað endalaust um þessi hugarefni sín.

Vefpóstur Elínar Ebbu er: ebba(hjá)hlutverkasetur.is

Nánar um Elínu Ebbu

Ferilskrá Elínar Ebbu

 

mynd-fyrir-heimasíðu

Heiðdís Traustadóttir

Heiðdís er fædd í Reykjavík árið 1983 og er að mestu uppalin í Breiðholti. Heiðdís er langyngst fjögurra systkyna og ólst þ.a.l. nokkurnveginn upp sem einkabarn. Hún flutti víða með mömmu sinni og kom við í Rimaskóla í Grafarvogi og Tornhøjskolen í Danmörku en leiðin lá alltaf aftur í Hólabrekkuskóla þar sem hún kláraði sína grunnskólagöngu.
Myndlistaráhuginn var snemma sýnilegur og var pabbi hennar mjög iðinn við að teikna með henni og sýna henni hvernig ætti að teikna fólk og jólasveina. Síðan þá hefur hún ýmist verið með blýant eða penna við höndina og þá eru hvorki minnismiðar né dagblöð óhult. Auk þessa voru foreldrar hennar mjög dugleg að lesa fyrir hana á kvöldin og meðal hennar fyrstu orða voru jólasveinavísurnar eftir Jóhannes úr Kötlum en kom þá í ljós hversu minnug hún getur verið á vísur og texta.
Heiðdís sótti myndlistabraut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og í Verkmenntaskólanum á Akureyri og síðar nam hún Félagsfræðibraut í FB, auk ýmissa námskeiða sem hún hefur stundað í gegn um tíðina. Þar á meðal silfursmíðanámskeið í Tækniskólanum í Reykjavík og síðar kláraði hún rússnesku 1 og 2 hjá Mími. Hún hefur einnig langa reynslu af eigin kvíða og félagsfælni.
Heiðdís aðstoðar við myndlistarkennslu í Hlutverkasetri auk þess að aðstoða við uppfærslu heimasíðu Hlutverkaseturs og fleiri tölvutengd verkefni.

 

Kremena starfsmennKremena Demireva

Kremena er fædd og uppalin í Búlgaríu. Hún nam kvikmyndafræði þar í landi og útskrifaðist sem kvikmyndasmiður á níunda áratugnum. Hún varð ástfangin, gifti sig og fylgdi síðan sínum manni sem var boðin vinna á Íslandi sem íþróttaþjálfari. Árin liðu, Kremena eignaðist 3 börn. Hún vann lengst af sem leiðbeinandi hjá Leikskólum Reykjavíkurborgar. Fyrir nokkrum árum varð Kremena fyrir áfalli, missti sjálfstraustið og akkerið í lífi sínu. Hennar ástríða er saumaskapur, hönnun, dans og mannnrækt. Hún þolir illa misrétti og mismunun og liggur ekki á skoðunum sínum. Ásamt því að kenna Zumba í Hlutverkasetri, tekur hún að sér viðgerðir á fötum, aðstoðar við saumaskap og tekur verkefni að sér á vegum Árbæjarsafns. Hún vinnur jafnframt sem liðveisla hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts og sinnir konum sem hafa einhverra hluta vegna einangrast. Kremena er afar jákvæð, vinsæl á meðal jafninga og alltaf stutt í grínið.


kristin

Kristín G. Sigursteinsdóttir

Kristín lauk B-S námi í iðjuþjálfun við Háskólann á Akureyri vorið 2008. Kristín starfaði á geðsviði Reykjalundar fyrstu sex mánuðina eftir útskrift og hóf störf hjá Hlutverkasetri í janúar 2009. Störf Kristínar tengjast atvinnulegu endurhæfingunni. Kristín ólst upp í fámenni og er því mjög tengd nátturunni, hollum mat og hefur gaman að föndri, allri útvist, hreyfingu og dansi. Kristin er varkár, einlæg, hlý, leynir á sér og hefur gott eyra.

Vefpóstur Kristínar er: kristin(hjá)hlutverkasetur.is

 

maría

María Gísladóttir

María er listamaður í húð og hár og ekkert kemst annað að hjá henni eftir að hún hóf göngu sína í Hlutverkasetri. Hún er góður kennari og aðstoðar Önnu við listkennslu. Hún hefur tekið þátt í ýmsum listanámskeiðum á lífleið sinni. María kallar ekki allt ömmu sína í lífsins ólgu sjó. Hefur búið víða í heiminum s.s. í Ísrael, Egyptalandi, Sýrlandi og Króatíu. Hún er þriggja barna móðir og hefur búið á Íslandi sl. 17 ár. Hennar aðalstarf hafa verið heimilsstörf. Hún er jákvæð, hlátursmild skyldurækin, ósérhlífin, gjafmild, samvikusöm, gleymin og utan við sig. Hún var fljót að finna sinn farveg í Hlutverkasetri og tekið þátt í myndlistarsýningum, listuppákomum og er með litabók fyrir fullorðna í farvatninu. María er sérfræðingur í afleiðingum ýmis konar andlegs ofbeldis. Hún er alltaf boðin og búin að deila reynslu sinni og láta gott af sér leiða til sinna samferðamanna.

 

Orri starfsmennOrri Hilmarsson

Orri er krabbi, tilfinninganæmur með sterka réttlætiskennd. Handknattleikur mótaði hann í æsku. Hann var annað hvort inn á vellinum að skora mörk, fyrir utan að hvetja sitt lið eða sem þjálfari unglingadeildarinnar. Hann fæddist með handknattleiksgen, afi hans, pabbi og bróðir lifðu og hræðust einnig í greininni. Orri hefur starfað við byggingariðnað, lærði rafvirkjum í iðnskólanum og starfaði í þeirra grein í 2 ár. Fyrir áratug missti Orri fótfestuna í lífinu. Síðan þá hefur hann orðið sérfræðingur sem notandi geðheilbrigðiskerfisins. Hann hefur verið á hinum ýmsu endurhæfingardeildum og býr nú í íbúðarkjarna á vegum Reykjavíkurborgar. Þegar hann var þjálfari unglinga í handknattleik var hann naskur að sjá styrkleika og veikleika liðsmanna. Hann hefur yfirfært þessa þekkingu og er fljótur að átta sig á styrkleikum og veikleikum í þjónustunni og vill leggja sitt að mörkun til að bæta hana.
Hann spilar með FC sækó fótboltaliðinu, tekur þátt í Humór geðveiku leikhúsi og spilar á trommur þegar tækifæri gefst og er að læra spænsku.

 

Sylviane starfsmenn HlutverkasetursSylviane Pétursson-Lecoultre

Sylviane hefur unnið sem iðjuþjálfi á geðdeild LSH við Hringbraut og Klepp í 33 ár. Hún er frumkvöðull og tók þátt í að móta starfsemi iðjuþjálfunar frá 1981. Hún byrjaði að vinna í Hlutverkasetri 2010, fyrst við samstarfsverkefni á milli LSH og Hlutverkaseturs en frá því í febrúar 2014 hefur hún eingöngu starfað í Hlutverkasetri. Hún sinnir í dag því sem hún hefur brunnið fyrir allan sinn starfsferil þ.e. að styðja fólk sem langar og getur unnið en hefur ekki tekist það sökum fordóma, fárra tækifæra, og skort á hlutastörfum. Hún aðstoðar við að undirbúa fyrstu skrefin út á vinnumarkaðinn og heldur tengslum eins lengi og þörf krefur. Sylviane er ástríðufull varðandi mannréttindi og auðvelt er að fá hana til að æsa sig upp ef henni er misboðið. Að öðru leyti skiptir hún ekki skapi, er afar vinnusöm og lítið fer fyrir henni. Hún er fædd í Sviss, sem er einkennandi fyrir málfar hennar. Hún stundar geðrækt af kappi með því að lifa reglusömu lífi, labbar til og frá vinnu í 90 mín, borðar bara á matmálstímum og lætur ekki freista sín með íslensku súkkulaði á milli mála. Sylviane hefur góðan húmor fyrir sjálfum sér og lífinu.

Vefpóstur Sylviane er: sylviane(hjá)hlutverkasetur.is