Sylviane Lecoultre

Sylviane Lecoultre

Iðjuþjálfi/atvinnuráðgjafi

Sylviane Lecoultre Pétursson vann sem iðjuþjálfi á geðdeild LSH í 33 ár. Hún er frumkvöðull og mótaði starfsemi iðjuþjálfunar hér á landi allt frá árinu 1981. Hún á fjölda aðdáenda í hópi þeirra einstaklinga sem hafa notið leiðsagnar hennar í gegnum árin. Sylviane hefur einnig handleitt ótal iðjuþjálfa í gegnum árin og aðstoðað þá við að taka fyrstu skrefin sem fagmenn.

Hún hóf störf hjá Hlutverkasetri árið 2010, fyrst í samstarfsverkefni á milli geðsviðs LSH og Hlutverkaseturs en frá árinu 2014 hefur hún eingöngu starfað hjá Hlutverkasetri. Hún aðstoðar við að undirbúa fyrstu skref einstaklinga út á vinnumarkaðinn og heldur tengslum eins lengi og þörf krefur.

Sylviane kom á laggirnar verkefninu Útrás en verkefnið styður við fólk sem langar og getur unnið en hefur ekki tekist það sökum fordóma, fárra tækifæra og/eða skorti á hlutastörfum.

Hún hefur einnig aðstoðað frönskumælandi útlendinga við að fóta sig í frumskógi regluverksins á Íslandi.

Sylviane er mikil baráttumanneskja og fylgin sér og hefur fundið áhugamálum sínum farveg með öflugri þátttöku í félagsmálum og er virk í ýmsum nefndum félagasamtaka. Hún situr nú í stjórnum Geðhjálpar, Lífsvirðingar, Sósíalistaflokks Íslands og Öryrkjabandalags Íslands.

Sylviane fór á eftirlaun sumarið 2019 og starfar nú sem sjálfboðaliði í frönskukennslu og styður frönskumælandi innflytjendur.