Opinn fundur samráðsvettvangs geðúrræðanna

Við minnum á opinn fund samráðsvettvangs geðúrræðanna á höfuðborgarsvæðinu með fulltrúum framboða til sveitarstjórnarkosninga í Reykjavík þriðjudagskvöldið 17. apríl kl. 19.30
Fundurinn fer fram í húsakynnum Geðhjálpar í Borgartúni 30, 2. hæð.

Fulltrúar framboðanna svara almennum spurningum um stefnu flokka sinna og sína eigin geðrækt.

Því næst gefst gestum tækifæri til að spyrja frambjóðendurna út úr.

Fundarstjóri verður Margrét Marteinsdóttir.
Fulltrúar flokkanna á fundinum eru eftirtaldir:
Bergþór H. Þórðarsson (Píratar)
Dagur B. Eggertsson (Samfylking)
Egill Þór jónsson (Sjálfstæðisflokkurinn)
Elín Oddný Sigurðardóttir (Vinstrihreyfingin grænt framboð)
Hjördís Guðný Guðmundsdóttir (Framsókn)
Sólveig Bjarney Daníelsdóttir (Miðflokkurinn)

Von er á fulltrúum frá fleiri flokkum
Missið ekki af þessu tækifæri til að spyrja pólitíkina spjörunum úr!

FacebookTwitterGoogle+Deila

Mömmuleikni – Vornámskeið

Við viljum vekja athygli á námskeiðinu Mömmuleikni sem verður haldið nú í sjötta skiptið í Hlutverkasetri vorið 2018. Námskeiðið er frítt fyrir mömmur.
Mömmuleiknin er fyrir mæður með geðrænan vanda (kvíða, þunglyndi eða annað) sem eiga barn/börn á aldrinum 2 – 5 ára, en börnin eru ekki með á námskeiðinu.

Námskeiðið er fræðsla, ekki meðferð, einu sinni í viku í 6 vikur, en einnig er boðið upp á einstaklingsviðtöl kjósi mæður að nýta sér það. Mömmuleikni er styrkt af Soroptimistakonum í Reykjavík og er samvinnuverkefni milli Hlutverkaseturs og geðsviðs Landspítala. Mömmuleiknin er einungis fyrir mæður vegna styrks Soroptimistakvenna sem starfa í þágu kvenna, þó að full þörf sé á slíku námskeiði fyrir feður líka.

Verið velkomin að benda mæðrum og/eða viðeigandi fagfólki á námskeiðið ef áhugi er fyrir hendi.

Hér að neðan eru nánari upplýsingar varðandi markmið með Mömmuleikninni og meðfylgjandi er auglýsing um Mömmuleiknina sem hefst miðvikudaginn 18.apríl kl. 9:30 í Hlutverkasetri.

Markmið með námskeiðinu er:
– Að mæður fái fræðslu og hvatningu til að tileinka sér tengslanálgandi hugarfar í samskiptum við börn sín.
– Að mæður fá fræðslu og innsýn í hvað getur legið að baki hegðun barna.
– Að mæður fái gagnleg og hagnýt ráð til að nýta sér í samskiptum sínum við börn sín og almennt til að draga úr streitu á heimilinu
– Að mæður öðlist innsýn í skynúrvinnslu barna, skynúrvinnsluvanda, birtingamynd þess og fái gagnleg ráð við skynúrvinnslu barna.
– Að mæður fái upplýsingar um hvert þær geti leitað sé þörf á stuðning eða meðferð í tengslum við móðurhlutverkið.

Mömmuleikni auglýsing vor 2018 png